Lögvernduð sniðganga afritunarvarna

Ég er að lesa lög, reyndar ekki svona eins og laganemar gera heldur bara þau lög sem koma núverandi pælingunum mínum við. Þetta er úr höfundalögum (áhugaverðustu partarnir breiðletraðir):

[50. gr. a. Óheimilt er að eiga viðskipti með eða hafa undir höndum í fjárhagslegum tilgangi tæki eða gögn sem hafa þann tilgang einan að auðvelda með ólöglegum hætti að fjarlægja eða komast fram hjá tæknilegum búnaði ætluðum til þess að koma í veg fyrir ólögmæta eftirgerð tölvuforrits.]1)
1)L. 9/2006, 13. gr.

[50. gr. b. Óheimilt er án samþykkis rétthafa að sniðganga tæknilegar ráðstafanir, sbr. 4. mgr.
Óheimilt er að framleiða, flytja inn, dreifa, selja, leigja, auglýsa til sölu eða leigu eða eiga í viðskiptalegum tilgangi búnað, vörur eða íhluti sem
1. eru kynnt eða auglýst sem leið til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum,
2. hafa aðeins takmarkað fjárhagslegt gildi eða notkunarmöguleika nema sem leið til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum eða
3. eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd, aðlöguð eða veitt í því skyni að gera kleift eða auðvelda að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum.

Ákvæði 2. mgr. gildir einnig um þjónustu.

Með tæknilegum ráðstöfunum í 1. og 2. mgr. er átt við hvers konar skilvirkar tæknilegar ráðstafanir sem samkvæmt eðlilegri notkun eru ætlaðar til þess að vernda verk og annað efni verndað með lögum þessum.
Ákvæði 1.–4. mgr. gilda ekki um vernd tölvuforrita.

Ákvæði 1.–4. mgr. eru því ekki til fyrirstöðu að gerðar séu rannsóknir á dulritun.]1)

Þetta eru lagagreinarnar sem eiga að verja afritunarvarnir. Ég verð að játa að málfarið á skilgreiningargreininni er svo tyrft að ég get ekki skilið hvað raunverulega felst í henni. Ég skil til dæmis ekki hvernig hægt er að kalla tæknilega ráðstöfun skilvirka ef það er hægt að sniðganga hana. Ég skil ekki heldur hvað átt er við með eðlilegri notkun. Er það eðlileg notkun að koma í veg fyrir að rafbókakaupendur noti þau tæki sem þeir eiga til þess að lesa rafbækur sem þeir hafa keypt löglega?
Mér þykir annars ósamræmi í lögunum því annars staðar stendur:

11. gr. [Heimilt er einstaklingum að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má nota slík eintök í neinu öðru skyni.]1)

Hvernig geta einstaklingar nýtt þessa heimild þegar þessar “tæknilegu ráðstafirnar” koma í veg fyrir eintakagerðina? Er það “eðlileg notkun”? Fólk hlýtur að mega fara framhjá þessum tæknilegu ráðstöfunum til að nota eigur sínar á eðlilegan hátt.

Það væri ákaflega gott að fá dóm um “tæknilegar ráðstafanir”. Það er nefnilega ekkert hægt að rökstyðja þessa vitleysu.

Hér ætlaði ég að hætta en ég fór á Alþingisvefinn og skoðaði umræður um málið. Þegar þáverandi Menntamálaráðherra mælti með frumvarpinu sagði hún:

Ljóst er að sú lögvernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana sem ákvæðum frumvarpsins er ætlað að tryggja tekur eingöngu til þeirra atriða er falla undir einkaréttindi höfunda og annarra rétthafa. Ákvæðum frumvarpsins um vernd tæknilegra ráðstafana er með öðrum orðum ekki ætlað að vernda ýmsar ráðstafanir útgefenda hljóð- og myndrita til að skipta heiminum upp í tiltekin markaðssvæði eða stjórna því að endurmiðlun slíkra verka geti aðeins fram farið í tölvum með stýrikerfi af tiltekinni gerð. Þvert á móti nær lögvernd tæknilegra ráðstafana er tengjast áþreifanlegum eintökum hljóð- og myndrita eingöngu til þess að varna óheimilli eftirgerð þeirra. Hafi eigandi hljóð- eða myndrits eignast það með lögmætum hætti og tæknilegar ráðstafanir varna honum að nýta það vegna framangreindra atriða telst vera um óheimila aðgangsstýringu að ræða sem ekki nýtur verndar að höfundarétti. Við slíkar aðstæður kann eigandanum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, að vera heimilt að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir.
[…]
Jafnframt er eintakagerð sem fram fer með sniðgöngu tæknilegra ráðstöfunar afritunarvarnar lýst refsilaus þegar um eintakagerð til einkanota er að ræða. Felur þessi breyting m.a. í sér að refsilaust verður að afrita efni hljómdisks með afritunarvörn yfir á Ipod eða sambærilega MP3 spilara til einkanota. Með þessu er verið að taka tillit til þess að notkun ýmiss konar tæknibúnaðar leiðir til eintakagerðar en lögmæti hennar kann að orka tvímælis. Því er mælt fyrir að gerð eintaka sem þannig verða til skuli vera refsilaus enda sé um lögleg afnot að ræða að öðru leyti, þar með talið að notað sé löglegt eintak verks sem viðkomandi hefur eignast með samþykki rétthafa.

Ég get ekki annað séð en að túlkun frummælanda frumvarpsins sé sú að þeir sem eiga t.d. Kindle rafbókalesara geti óhræddir fjarlægt afritunarvarnir af íslenskum rafbókum í þeim tilgangi að setja þær í eigin tæki. Sömuleiðis geta menn sem eiga aðrar tegundir af rafbókalesurum verslað óhræddir við Amazon og tekið afritunarvarnir þeirra af rafbókunum sínum til að geta lesið þær í eigin tækjum.