Gagnsleysi hugrekkisins

Ef ég hef einhvern tímann á ævinni verið hugrakkur þá var það þegar ég var í tíunda bekk. Þá sat ég, eins og svo oft, í “skákstofunni” í frímínútum. Ég heyrði að það var eitthvað um að vera frammi og fór þangað. Ég sá á að það var búið að lemja strák þannig að hann var kominn með blóðnasir og sá sem það gerði ætlaði greinilega að lemja hann meira.

Ég stökk á milli og ýtti þessum árásargjarna í burtu. Einhvern veginn tókst mér þetta án þess að vera laminn sjálfur og þrátt fyrir að vera kannski bara örlítilli skör hærra í samfélagi nemenda en drengurinn var verið að lemja. Hann hafði í mörg ár orðið fyrir heiftarlegu einelti. Ég tók líka eftir á og þurrkaði blóðið sem hafði farið á gólfið svo krakkarnir hefðu ekkert til þess að stara á.

Seinna um daginn gekk drengurinn sem var verið að ráðast á framhjá mér og hvíslaði eitursnöggt, án þess að líta í augun á mér: “Takk”.

Ég var lengi stoltur af þessu þó ég hafi ekki sagt nema örfáum frá þessum. Stoltið hvarf þegar drengurinn framdi sjálfsmorð 23 ára því þá sá ég hvað þetta var lítils virði fyrir hann í raun. Hann náði sér aldrei eftir það helvíti sem grunnskólinn var honum.