Guðmundur Andri Thorsson er líklega ofmetnasti pistlahöfundur landsins (ad hominem).
Þeir tala um alkóhólistagen. Og var víst eitt af því sem átti að gera okkur rík í síðustu bólu – að hafa þessi óskaplegu gen. Ég veit það ekki. Ég er ekki nógu vel að mér í líffræði til að vita hvort til sé alkóhólistagen, þjófagen, lygagen, utanviðsig-gen eða kærleiksgen. Held samt ekki. Getur ekki verið að við höfum gert fullmikið úr því að allt okkar framferði stafi af virkni gena? Er þetta ekki hálf vonarsnauð viska og vélræn? Er þessi vísindatrú studd eitthvað meiri þekkingu – í raun og veru – en önnur trúarbrögð?
Byrjum á því fyrsta, það er „sekt sökum tengsla“ (guilt by association) rökvillan. Rannsóknir á genum eru tengdar bóluhagkerfinu til að varpa rýrð á þær. Síðan er restin eiginlega strámannsrökvillan. Það er enginn sem er vel að sér í erfðafræði sem telur vera svona nauðhyggjutengsl milli gena og hegðunar. Þetta er misskilningur fólks sem hefur ekki vit á málinu. Guðmundur Andri játar reyndar að hann skorti þekkingu en hann ákveður samt að draga ályktanir af sinni takmörkuðu þekkingu.
Það má reyndar segja að Guðmundur Andri sé meira einkenni á vandanum heldur en vandinn sjálfur. Almenningur er almennt uppfræddur um erfðafræðirannsóknir af blaðamönnum sem sjálfir skilja ekki fræðin. Síðan koma pistlahöfundur eins og Guðmundur Andri – sem hvorki skilja fræðin né hafa haft tækifæri til þess að lesa nokkuð af viti um málin – og skrifa um hve þessi fræði séu nú rugluð. Íslenska fjölmiðla skortir vísindablaðamenn.
Gen spá ekki 100% fyrir um hegðun. Það að þú hafir þetta svokallaða alkahólistagen þýðir ekki þú verðir alkóhólisti. Slíkt er samspil umhverfis og erfða. Við getum sagt að alkahólistagenið auki líkurnar á alkahólisma sem er allt annað en nauðhyggja. Ef þú hefur alkahólistagen en elst upp í fjölskyldu þar sem enginn drekkur þá minnka líkurnar væntanlega. En þú getur hins vegar líka alveg verið með alkahólistagen og alist upp í alkahólistafjölskyldu og samt sem áður sleppt því að drekka.
En hvert er þá gagnið af því að þekkja þetta alkahólistagen? Í fyrsta lagi þá gæti maður einfaldlega fengið að vita að maður sé með það og þar af leiðandi haft betri grunn til að taka upplýsta ákvörðun um að hefja drykkju. Alveg á sama hátt og þeir sem vita að þeir hafa gen sem tengjast ákveðnum sjúkdómum geta reynt að taka upplýstar ákvarðanir um að forðast allt það sem getur aukið líkurnar á því enn frekar. Í öðru lagi er, eftir því sem ég best veit, ekki útilokað að hægt sé að slökkva á virkni ákveðinna gena. Þannig myndu líkurnar á alkahólisma hjá þeim einstaklingum væntanlega minnka – en þó líklega ekki hverfa.
Mér þætti nú gaman ef einhver sem hefur vit á fræðunum geti sagt mér hvort ég hafi á einhverjum punkti fullyrt meira en ég ætti að gera á grundvelli minnar takmörkuðu þekkingar. Ég veit nefnilega að þó ég hafi yfir meðallagi gott vísindalæsi miðað við bakgrunn minn í félags- og hugvísindum þá vantar ýmislegt upp á að ég hafi fullt vit á málunum.