Auðhringir – SMÁÍS og Netflix

Nýjasta útspilið í umræðunni um höfundaréttarmál er sérstaklega galið. Í gegnum tíðina hefur umkvörtunin verið sú að neytendur séu ekki að borga framleiðendum og höfundum fyrir efnið sem þeir eru að horfa og hlusta á. Í dag er hins vegar barist harkalega gegn neytendum sem eru að borga fyrir aðgang að efni í gegnum kerfi eins og Netflix. Á þessum tímapunkti er rétt að spyrja hvort það sé ekki hægt að kalla SMÁÍS auðhring (cartel). Það er samstarf aðila sem ættu að vera í samkeppni við hvern annan til þess að koma í veg fyrir að aðrir geti komist á markað þeirra.

Ég hef oft sagt þetta áður en það má segja það aftur. Hér áður fyrr þurfti milliliði til þess að dreifa sjónvarpi og tónlist heimshorna á milli. Það er engin þörf á þeim í dag. Umkvörtun SMÁÍS er fyrst og fremst að þessir óþörfu milliliðir séu hættir að fá borgað. Þetta eru einokunartilburðir
Videoleigur eru búnar að vera, þetta segi ég þó ég sakni þeirra upp að vissu marki. Þær eru bara orðnar óþarfar. Sjónvarpsstöðvar sem treysta aðallega á að sýna erlent afþreyingarefni eru búnar að vera. Sjónvarpsstöðvarnar hafa þó allavega þann kost að leggja áherslu á innlenda framleiðslu. Þannig geta þær lifað áfram. Satt best að segja þá finnst manni helst eins og að ÍNN og N4 séu þær sjónvarpsstöðvar sem eru best búnar fyrir framtíðina. Reyndar vantar þeim sárlega að bæta stafræna dreifingu á stökum þáttum í stað þess að treysta svo mjög á útsendingar.

Satt best að segja myndi ég telja einna auðveldast í dag að nota YouTube sem mest. Þeir sem búa til sjónvarpstölvur og stýrikerfi fyrir sjónvarpstölvur hafa oftast lausnir til þess að spila YouTube efni. Nýlega kom líka frétt þess efnis að hægt yrði að láta borga fyrir efni á YouTube. Það er þó vissulega vont að treysta um of á þá og betra að hafa fleiri lausnir.

Framtíðin er núna. Satt best að segja grunar mig að það sé tiltölulega stutt í að það verði algjör sprengja í framleiðslu á íslensku efni.