Framkvæmdastjóri Senu og Netflix

Björn Sigurðsson framkvæmdastjóri Senu var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2. Ég byrja á einfalda punktinum og samþykki það að það er vissulega slæmt að erlendar efnisveitur þurfi ekki að borga skatta hér á landi.

Það var rætt um muninn á Netflix og Spotify. Spotify kom hingað og samdi við rétthafa en Netflix vildi það ekki. Stóri munurinn er að þegar kemur að tónlist þá hafa íslenskir rétthafar eitthvað einstakt fram að færa. Þeir hafa töluvert magn af tónlist. Það á ekki við um kvikmynda- og sjónvarpsefni. Mig grunar líka að þegar íslenskir dreifingarétthafar séu búnir að taka sinn skerf þá verði áskriftin orðin frekar dýr.

Björn sagði að það sé „fáfræði“ að segja dreifikerfi kvikmynda sé úrelt. Hann sagði líka að þetta væri flóknir samningar og allt það. Ég er einmitt á því að það séu þessir flóknu samningar sem séu úreltir. Heimurinn á að vera eitt markaðssvæði þegar kemur að dreifingu efnis á netinu. Það er galið að hægt sé að stjórna aðgengi fólks að efni og mismuna því í verði eftir því hvar þar býr.

Það var síðan svolítið skondin umræða um House of Cards og Björn talaði um að Netflix hefði ekkert leyfi til þess að sýna House of Cards á Íslandi og þar með fengu framleiðendur ekkert fyrir áhorfið hér á landi. Af samhenginu að dæma heyrði ég ekki annað en að um væri að ræða bandaríska House of Cards sem Netflix framleiðir (og græðir því vissulega á hvar sem fólk kaupir).

Björn hvatti fólk að vinsamlegast hugsa um börnin. Annars vegar hvað kvikmyndaskoðun varðar og talaði um að það væri engin leið fyrir foreldra að stjórna hvað börnin þeirra sæu á Netflix. Það er bara ósatt. Foreldrar geta víst stjórnað þessu og væntanlega á einfaldari hátt en varðandi venjulegt sjónvarpsefni. Hins vegar á fólk að hugsa um börnin af því að Netflix er ekki skyldað til þess að texta og talsetja eins og íslenskir dreifingar- og sýningaraðilar. Björn hefur væntanlega aldrei heyrt um Fjölvarpið eða neitt af öðrum sjónvarpsstöðvum sem sýna hér ótextað og ótalsett barnaefni án þess að nokkur stoppi það (náði Stöð 2 ekki fyrir löngu að afnema þessar takmarkanir?).

Það var nokkuð fyndinn punktur varðandi það að Björn hefði heyrt að mikil notkun á Netflix hefði orðið til þess að það hefði þurft að borga 3-5 þúsund krónur aukalega fyrir niðurhal. Ég hugsaði með sjálfum mér að þá væri Netflix dæmið væntanlega farið að kosta næstum jafn mikið og áskrift að Stöð 2.

Undarlegasta innlegg Björns var að höfundaréttur væri verndaður í stjórnarskrá Íslands. Ég hef aldrei rekist á það ákvæði og ef það er til staðar þá er það vel falið.

0 thoughts on “Framkvæmdastjóri Senu og Netflix”

  1. Björn á við að höfundarréttur sé eign og því sé hann varinn af eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar.Höfundarréttur er eign höfundarréttarhafa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *