Russell Brand er ekki hetjan mín

brandÞegar ég frétti að Russell Brand væri að koma til landsins var ég fljótur að redda miðum. Ég sannfærði líka Eygló að koma með mér. Það fór svo að þetta varð akkúrat fyrsta skiptið sem við tvö höfum farið saman eitthvað út án drengjanna síðan Ingimar fæddist.

Við fórum á seinni sýninguna sem var á þriðjudagskvöld. Við vorum með miða á þriðja bekk. Við hefðum getað komist framar en eftir að hafa séð uppistönd með Brand þótti mér betra að vera aðeins aftar. Sjálfur hefði ég reyndar höndlað smá athygli frá honum en Eygló hefði væntanlega farið hjá sér. En já, við vorum með góð sæti.

Þetta var reyndar fyrsta skiptið mitt í Hörpu og mér leyst bara vel á. Ég er reyndar einn af fáum sem þótti fyrirfram að byggingin væri of stór og ekki nógu falleg en var síðan nokkuð harður á því að það ætti að klára hana (aðallega af því að það hefði einfaldlega kostað stórfé að klára ekki).

Áður en sýningin byrjaði nefndi ég við Eygló að kynjahlutfallið í salnum væri frekar óvenjulegt. Mig grunar nefnilega að yfirleitt dragi svona uppistandarar að sér fleiri karlmenn en konur. Reyndar verður að teljast merkilegt að Brand nái að fylla næstum tvær sýningar í stóra salnum í Hörpu því lítið af efni hans hefur verið sýnt hér á landi. Þarna er netið auðvitað að standa fyrir sínu.

Sýningin byrjaði á ljóðskáldinu Mr. Gee sem var aðallega með uppistand en líka nokkur ljóð. Hann var ágætur. Ég næ reyndar ekki að hlæja sérstaklega mikið að bröndurum um hákarla og víkinga þannig að ég hló ekki jafn mikið og margir aðrir. Eftir hans stutta stans á sviðinu var 20 mínútna hlæ. Þá ösnuðumst við Eygló til þess að versla í sjoppunni. Hefðum bara átt að sleppa því.

Russell Brand lét ekki bíða eftir sér eftir hlé. Hann byrjaði eiginlega á því að æða út í sal og tala við og gera grín að áhorfendum. Einn 13 ára drengur sem kom með móður sinni fékk töluverða athygli. Hann gekk fyrir aftan mig en tók ekki einu sinni eftir þegar ég tók mynd af honum.

Ég vissi fyrirfram hvert þema sýningarinnar yrði og þótti áhugavert. Hann var að fjalla um hetjur. Hann tók fyrir sínar eigin hetjur, Gandhi, Che, Malcolm X og Jesús og benti á galla þeirra. Hans megin áhersla var á að við ættum að eiga okkur hetjur þó þær væru gallaðar og ég er að mörgu leyti ósammála honum þar. Ég held að við ættum ekki að setja fólk á stall þó við getum vissulega dáðst að fólk af mörgum ástæðum.

Mér þótti Brand stórfyndin en stundum hefði hann mátt lesa sér aðeins betur til um það sem hann var að segja og fullyrða aðeins minna. Til að mynda er víst ólíklegt að skólamynd sem hann sýndi sé raunverulega af Hitler og Wittgenstein (þeir voru í sama skóla en ekki sama bekk eins og Brand hélt fram).

Ég hafði ákaflega gaman af bröndurum hans um Sigmund Davíð og almennt varðandi það að við höfum aftur kosið yfir okkur hrunliðið. Ég hefði reyndar viljað benda honum á að viðhorf eins og hans til kosninga sé þar hluti af vandamálinu.

Svo fólk fái ekki ranga mynd af sýningunni er rétt að taka fram að ótrúlega margir brandarar Brand fjölluðu um kynlíf og sumir hverjir voru töluvert grófir. Ég geri ráð fyrir að einhverjir foreldrar sem komu þarna með börnin sín hafi fengið bakþanka vegna ákvörðunar sinnar.

Aðal skotmark Brand er hann sjálfur. Langflestir brandararnir (Brandararnir?) voru á hans eigin kostnað. Suma þekkti ég reyndar fyrir enda hef ég lesið ævisögu hans en meira að segja þeir voru sagðir á ferskan hátt.

Sumsé, stórgóð skemmtun. Spurning hvort einhver vilji síðan flytja inn Frankie Boyle næst.

Leave a Reply