Teiknimyndasöguárið mitt mikla

Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að ég hafi í raun misst af teiknimyndasöguútgáfu á Íslandi. Blómleg útgáfa fyrri ára var að deyja út þegar ég byrjaði að lesa. Sjálfur átti ég aldrei nema nokkrar bækur af Goðheimum og tvær úr flokknum Fræknir landkönnuðir. Mest las ég af teiknimyndasögum í Borgarnesi. Þar las ég Tinnasafnið hans Guðmars, líka Steina Sterka, Sval og Val og Lukku Láka. Eitthvað las ég líka af bókum sem bræðurnir Gunnlaugur Starri og Þórarinn áttu.

Það má ekki gleyma Andrési Önd. Reyndar kom ég líka þar inn á mörkum því ég tilheyri þeirri kynslóð sem aldrei las Andrés á dönsku. Anna systir var áskrifandi af íslenska Andrési frá upphafi, 1983, og ég las það allt sem kom út af því. Afi batt þetta líka inn og þetta endaði hérna hjá mér. Ég sá líka um að skipuleggja bunkana áður en afi batt þá inn. Ég raðaði öllu í tímaröð. Aðalsteinn og Starri náðu þó að eyðileggja skipulagið með því að lesa blöðin og ganga þannig frá einum bunkanum að blöðin í einu bindinu eru í öfugri röð. En ég hætti að lesa Andrés þegar skipt var um þýðendur og persónurnar breyttu allt í einu um nöfn. Það fór voðalega í taugarnar á mér.

Ég átti einhver blöð af Alf en sú útgáfa gekk svo rosalega vel að ennþá dúkka þau upp óseld á bókamörkuðum. Ég held ég hafi líka lesið einhver Tarzan blöð á íslensku en það var ekki eftirminnilegt.

Í framhjáhlaupi má nefna að ég las teiknimyndasögustrípur í blöðum af miklu kappi. Reyndi meira að segja á tímabili að klippa það út og geyma. Ég tilheyri líka þeim hópi sem byrjar að lesa blöð á baksíðunni en það kom einmitt til af því að teiknimyndasögurnar voru yfirleitt í aftari hluta blaðanna. Ég keypti nokkrar Grettisbækur, seinna á ensku, og á líka eitthvað af Calvin & Hobbes og Peanuts.

Þegar ég var svona 16 ára las ég Dark Knight Returns eftir Frank Miller sem Þórarinn frændi lánaði mér. Ég var hrifinn en las aldrei mikið meira. Ég las stöku teiknimyndasögur, Maus, Persepolis og eitthvað fleira. Stóra undantekning er Sandman sem ég las í heild sinni fyrir löngu síðan og á upp í hillu. En mig vantaði alltaf hvata til að ganga lengra.

Síðan kom í ljós á þessu ári að vinnunnar vegna var ákaflega gott að komast inn í teiknimyndasögur. Ég fór því að lesa á fullu. Ég las ýmis grundvallarrit á árinu, V for Vendetta, Watchmen, Killing Joke, Weapon X og Preacher. Ég las líka m.a. Fables (stoppaði í 100 – klára þegar restin er komin), Scott Pilgrim, heilmikið af Daniel Clowes og 6 bækur í viðbót af Goðheimum. Það er oft erfitt að lesa ofurhetjusögur því þær krefjast oft svo mikillar bakgrunnsþekkingar á persónum og tengslum þeirra. En ég las eitthvað af Batman, Superman (Red Son var best), Wolverine og Green Arrow. Ég byrjaði á nokkrum sögum sem ég gafst upp á af því að mér fannst þær ekki góðar (þar af einhverjar sem almennt eru taldar frábærar) eða af því að ég hafði ekki grunninn sem þurfti til. Ég las nokkrar teiknimyndasögur eftir Kevin Smith og ályktaði að þetta form hentaði honum alls ekki. Ég er líka að lesa Lukka Láka á ensku en það er voða dapurt að það sé auðveldara heldur en að fá frábæru íslensku þýðinguna.

Af tilviljun fór Stefán Pálsson af stað með teiknimyndasöguþætti á Rás 1 núna í haust. Eftir spjall við Ásgeir, sem gerði þátt um sögur tengdar Júgóslavíustríðinu, ákvað ég að bjóða fram krafta mína (enda bæði með reynslu og menntun í gerð útvarpsefnis) til að gera þátt um Sandman (sem ég var akkúrat að endurlesa). Sá þáttur fjallaði líka almennt um höfundinn Neil Gaiman (það má spila þáttinn í spilaranum hérna).

Draumur Neil Gaiman
Ég hafði verulega gaman af því að gera þáttinn þó ég hafi þurft að treysta óhóflega á rödd mína, mér þykir skemmtilegra að gera þætti með viðmælendum og klippa efnið þannig að ég þurfi sem minnst að segja. Ég stakk því upp á við Hjördísi vinkonu mína að gera þátt um efni sem er í uppáhaldi hjá henni en það er Daniel Clowes sem gerði m.a. Ghost World. Þetta var allt samþykkt og seinni þátturinn var sendur út núna í desember (það má spila þáttinn í spilaranum hérna).


Í gær frétti ég að Talblöðruþættirnir væru komnir inn á torrentvefinn Deildu. Það er skemmtilegt en flestir eru þeir þó á hlaðvarpi RÚV (vantar samt tvo síðustu).

Þetta var því svoltið skemmtilegt teiknimyndasöguár hjá mér og ég geri ráð fyrir að kafa dýpra á næsta ári.

Leave a Reply