Sælir eru fáfróðir karlar

Í hvert skipti sem rætt er um að auka hlut kvenna (hvort sem það er í Gettu betur eða stjórnunarstöðum) kemur einhver og segir eitthvað á þessa leið:

En þetta er ósanngjarnt gagnvart konum því þær og allir aðrir vita að þær komust bara í þessa stöðu vegna kyns síns.

Þarna er punkturinn algjörlega misstur. Við búum í samfélagi þar sem karlmenn komast í stöður vegna kyns síns. Það getur verið vegna fordóma þeirra sem skipa í stöðurnar eða fordóma og mótunar samfélagsins almennt. Ég myndi segja að það væri augljóst að Sigmundur Davíð og Bjarni Ben séu báðir búnir að græða þannig á kyni sínu að þeir hefðu aldrei komist í þær stöður sem þeir eru í dag ef þeir væru konur. Til þess þá þyrftu þeir (þær) að vera miklu hæfari (allavega Bjarni Ben). En enginn segir að það eigi að vorkenna þessum mönnum. Mögulega er vandinn sá að þeir, og stór hluti samfélagsins, áttar sig ekki á því hvernig það fúnkerar.

„Sælir eru fáfróðir karlar“ getum við sagt „því þeir vita ekki að þeir eiga stöðu sína typpinu að þakka“.

0 thoughts on “Sælir eru fáfróðir karlar”

  1. Ég átta mig aldrei á því hvort lausnin er hugsuð praktískt til að jafna kynjahlutföll eða sem lausn á ímyndarvanda (svo litlar stúlkur eigi sér nægar fyrirmyndir til að finnast þær geta gert hvað sem er til jafns við karla). Ég hef meiri áhyggjur af hinu síðarnefnda en þá þarf lausnin líka að taka mið af upplifun fólks í samfélaginu (og það eru ekki bara karlar þessarar skoðunar sem þú lýsir, af og frá) og gagnast lítið að segja þeim bara að þau séu vitlaus og skilji ekki. Ég er hlynntari kynjakvótum en ekki – mér finnst samt að það væri ágætis byrjunarskref að láta ekki bara einsog það sé lausn sem bara við blasi að sé rétt. Það er nefnilega alger tík að fást við ímyndar- og sjálfsmyndarvandamál. Mér detta í hug rökin sem voru stundum viðhöfð fyrir lengingu leikskólakennaranáms – að það myndi hefja starfið til sinnar sönnu virðingar (og hækka launin). Það virkaði eiginlega öfugt, ef mér skjöplast ekki.

Leave a Reply