Gagnrýni er ekki að rýna til gagns

Mig minnir að fyrir einhverjum árum höfum við Biggi, og líklega fleiri, verið að ræða um hugtakið gagnrýni. Einhverjir hafa haldið því fram að orðið hafi þá merkingu að „rýna til gagns“. Ég náði að finna greinina sem kom þessu orði í íslenska tungu og þar er þessi skilningur ekki til staðar. Orðsmiðurinn var, væntanlega, Valtýr Guðmundsson ritstjóri Eimreiðarinnar.

Til gamans fletti ég líka upp, þó það sé erfiðara, hver gæti hafa komið þessu misskilningi af stað. Freyr nokkur Þormóðsson skrifaði í grein í Helgarpóstinn 1988 að gagnrýnendur ættu að rýna til gagns en segir ekki beint að það sé merking orðsins. Því heldur hins vegar Jóhann Ingi Gunnarsson blákalt fram í viðtali við DV árið 1990. En mér er til efs að þessir menn hafi fundið upp á þessari eftiráskýringu á orðinu.

En hér er greinin úr Eimreiðinni (1896) ykkur til ánægju.

Gagnrýni
Eitt af því, sem einna tilfinnanlegastur skortur er á á íslandi, er það sem á útlendu máli kallast »krítík«. Það kveður jafnvel svo rammt að, að við eigum einu sinni ekki neitt orð yfir hugmyndina í málinu. Að »kríttsera« er eiginlega það, að láta sjer ekki nægja að skoða hlutina eins og þeir líta út á yfirborðinu, heldur leitast við að rýna í gegnum þá og gagnskoða, til þess að sjá hina innri eiginleika þeirra, bæði kosti og lesti. Það er með öðrum orðum að kafa í djúpið og sækja bæði gullið og sorann, greina það hvort frá öðru og breiða hvorttveggja út í dagsbirtunni, svo að allir, sem hafa ekki sjálfir tíma eða tækifæri til að vera að kafa, geti sjeð, hvað er gull og hvað er sori. Þetta virðist oss að mætti kalla á íslenzku gagnrýni og gagnrýninn þann mann, sem sýnt er um að gagnrýna hlutina.

Gagnrýnin er nauðsynleg fyrir þjóðlífið eins og saltið fyrir matinn. Vanti gagnrýnina, er hætt við, að sumt kunni að taka að rotna eða að minnsta kosti að þeim, sem eiga að súpa seyðið af gjörðum forgöngumanna þjóðfjelagsins, finnist það nokkuð dauft á bragðið, og að svo geti farið með tímanum, að þeir, sem hafa óbilaðar bragðtaugar, fái velgju, en hinir, sem líklega verða miklu fleiri, missi algerlega smekkinn, og er það ekki síður hættulegt.

Í engum efnum finnst oss jafnmikil þörf á gagnrýninni nú sem stendur á Íslandi eins og í öllu, er lýtur að þjóðmálum og stjórnarfari. Það vantar að vísu eigi, að blöðin finni að ýmsu og lofi annað, en gagnrýni þeirra er þó vanalega ekki á marga fiska. Hún er að jafnaði nokkuð handahófsleg og hættir við að bera keim af annaðhvort eintómum gullhamraslætti eða illvígu hnútukasti, fremur en af verulegri gagnrýni. Til þessa liggja auðvitað sjerstakar ástæður. Er þar fyrst að telja þá, að þar sem blaðamennskan er mestmegnis höfð í hjáverkum, þá er ekki von að blaðamennirnir geti lagzt mjög djúpt. Í annan stað er sjóndeildarhringur þeirra sumra hverra svo takmarkaður, að varla verður ætlazt til, að þeir geti dæmt um það, sem mikið víðsýni þarf til að gagnrýna, enda hættir þeim opt við að einblína fremur á ávextina, en að skoða orsakasambandið og grafa fyrir ræturnar. Þá er og nærsýni sú, sem stafar af dvergvexti þjóðfjelagsins; því þar sem þjóðfjelagið er svo smávaxið, að hver þekkir annan, þar er jafnan hætt við, að það ráði miklu í dómum um einstaka menn og framkomu þeirra, hvort menn bera til þeirra hlýjan hug eða hafa ýmugust á þeim. Að lokum má telja einstrengingslega og misskilda þjóðernistilfinning, sem hjá sumum mönnum er farin að fá á sig hinn megnasta kínverskublæ, er í ýmsum málum dregur glýju eða jafnvel ský á augu manna, svo þeir verða stundum hálfblindir, og eru svo að streitast við að hlaða gorgeirsmúr kringum landið, til þess að varna öllum útlendum áhrifum, en »bara ef lúsin íslenzk er, er þeim bitið sómi«. Þetta öfugstreymi í þjóðernistilfinningunni er hinn mesti þröskuldur í vegi fyrir sannri gagnrýni, því ekkert er eins hættulegt fyrir hana og það, ef tilfinningin ber skynsemina ofurliði.

En blaðamennirnir íslenzku eiga líka við ramman reip að draga, þegar þeir eru að gagnrýna gjörðir embættismannanna eða annara forkólfa þjóðfjelagsins. Þó maður skyldi halda, að einmitt þeir menn, er hafa það hlutverk með höndum, að beitast fyrir í alþjóðarmálum, hefðu töluvert rýmri sjóndeildarhring en flestir aðrir, sýnir þó reynslan, að flestir þeirra eru svo herfilega nærsýnir, að þeir stökkva upp á nef sjer og skoða það sem persónulega móðgun við sig, ef eitthvað er fundið að gjörðum þeirra í opinberum málum. Það er sama hvort það er amtmaður, sýslumaður, bæjarfógeti eða alþingisforseti, allir rjúka þeir undir eins í málaferli, ef eitthvað er fundið að framkomu þeirra í opinberum málum, og reyna þannig að bæla niður alla verulega gagnrýni. Þeim virðist ekki vera það ljóst, að þeir menn, sem hafa opinber störf á hendi, eru skyldir að þola gagnrýni. Þeir munu nú segja sem svo, að þá verði líka gagnrýnin að vera sanngjörn og benda jafnt á gott sem illt. Það er nú að vísu rjett; en þó ber þess að geta, að það er ofboð eðlilegt, að blöðin einkum bendi á það, sem þeim þykir. ábótavant, en láti hitt fremur liggja í þagnargildi. Það er miklu minni þörf á, að geta um það, sem er eins og allir vildu helzt kjósa, heldur en hitt, sem aflaga fer, nema hið góða sje svo framúrskarandi, að það geti orðið öðrum til eptirdæmis, og þá mun það sjaldan látið liggja í láginni. Það fer líkt með þetta eins og veðrið í kunningjabrjefunum. Sje alls ekkert minnzt á það í brjefunum, þá er óhætt að treysta því, að það hafi verið allgott, því það er æfinlega tekið fram, ef það hefur verið illt, og eins ef það hefur verið framúrskarandi gott.

Það er nú að vísu víðar pottur brotinn í þessum efnum. Það ber víðar við en á íslandi, að forkólfar þjóðfjelagsins leitist við að þagga niður gagnrýnisraddir blaðanna með málaferlum, þó meira kveði að því þar en annars staðar. En sá er munurinn, að blöð annara landa hafa vanalega svo mikið bolmagn, að það gerir þeim ekkert til, þó þau sjeu dæmd í töluverðar sektir, og láta því hvorki þær nje fangelsisvist aptra sjer frá, að beita gagnrýni sinni, þegar þeim finnst þörf á henni fyrir þjóðfjelagið. Því auðvitað getur gagnrýnin verið rjett og nauðsynleg, þó einhver lagagrein, sem teygja má sem hrátt skinn, heimili hana ekki að öllu leyti. Á íslandi er aptur efnahagur blaðanna — af því þau eru svo mörg og svo smá — svo bágborinn, að þau þola ekki nein áföll, og því síður mega þau við því, að ritstjórarnir hætti sjer svo langt fyrir sannfæring sína, að þeir verði dæmdir í fangelsisvist. Þá væri blaðið líklega úr sögunni í sama vetfangi. Afleiðingin af þessu verður hugleysi og ósjálfstæði, því »fátæklingurinn, sem jafnan er upp á aðra kominn, getur aldrei orðið fullkomlega sjálfstæður nje frjáls« (Eimr. I, II). Og svo kemur vaninn í tilbót, svo að menn jafnvel leiða hjá sjer, að finna að því, sem þó ekki gæti bakað þeim neina lagalega ábyrgð, og öll veruleg gagnrýni fer út um þúfur.

Og hver er svo afleiðingin af þessari vöntun á fullkominni gagnrýni? Hún er sú, að siðferðislegt þrek, sjálfstæði, drengskapur, orðheldni, óhlutdrægni og aðrir andlegir mannkostir fara óðum þverrandi hjá þjóðinni. Þetta er harður dómur, en því miður er hann sannur, þótt grátlegt sje til þess að vita. Það kveður jafnvel svo rammt að þessu, að þetta er farið að koma ótvíræðlega í ljós á sjálfu alþingi íslendinga, hjá hinum útvöldu fulltrúum þjóðarinnar. Allir vita, hversu nauðsynlegt það er álitið fyrir þá, sem um eitthvað hafa sótt til þingsins, að vera sjálfir viðstaddir á áheyrandapöllunum, til þess að »horfa atkvæði út úr þingmönnum«. Þó að nokkuð mikið kunni nú að vera gert úr því, þá er þó hitt eigi að síður víst, að þetta álit hefur við töluverð rök að styðjast. Það er sannreynt, að marga þingmenn brestur kjark til að greiða atkvæði á móti þeim mönnum, sem sjálfir eru við staddir, þótt þeir annars mundu hafa gert það. Þetta hefur meðal annars leitt til þess, að sumir menn, sem eitthvað þykjast eiga undir sjer, eru farnir að leggja í vana sinn að sitja í Rvík allan þingtímann, þó þeir hafi þar ekkert annað að gera en að reyna að hafa áhrif á þingmenn og embættismenn. Og áhrifin af veru þeirra hafa stundum komið svo berlega í ljós, að það er til stórkostlegrar minnkunar fyrir þingið og þjóðhöfðingja vora. Þá eru atkvæðasvikin ekki góður vottur. Eins og menn vita, verða menn á öllum þingum, til þess að þingstörfin geti farið í nokkru lagi, opt að vera búnir að koma sjer saman um það, áður en á þingfund er gengið, hvernig menn ætli sjer að snúast við því og því máli. Þetta gera menn líka á alþingi, en þar hefur það á seinni árum sýnt sig, að menn fyrirverða sig ekki fyrir að svíkjast um að greiða atkvæði eins og þeir hafa lofað fyrirfram, — ekki einungis frá einum degi til annars, heldur jafnvel frá einni klukkustund til annarar. Mest kveður að þessu við allar kosningar, einkum í hinar þýðingarmestu nefndir þingsins t. d. í fjárlaganefnd. Þessi alda er jafnvel farin að rísa svo hátt, að sumir þeirra, er skipa hin efstu virðingarsæti þingsins, hafa ekki gætt betur sóma síns en svo, að gera sig seka í þessari óhæfu. Og í einu máli kom það fyrir á síðasta þingi, að rúmur þriðjungur deildarmanna í neðri deild (7 þingmenn) svikust um að greiða atkvæði, eins og þeir höfðu lofað fyrirfram. En þá átti líka eiristakur maður í hlut, sem í það sinn sat á áheyrandapalli, þótt hann aldrei hefði sjezt þar allan þingtímann áður/ nema þegar merafrumvarpið var á ferðinni, enda gekk og meðferð þess honum að óskum. Sá skortur á siðferðislegu þreki, sú ósjálfstæði og sá ódrengskapur, sem lýsir sjer í slíkri meðferð á löggjafarmálum þjóðarinnar, er harla athugaverður, enda hefur merkur maður sagt oss, að einmitt fyrir þær sakir hafi einn hinn mesti hæfileikamaður landsins hrökklazt út úr þinginu (כ : neitað að taka endurkosning), af því hann gat ekki átt í því, að eiga að búa við sífeld svik.

»Samvizkulaus þingmaður er óttalegt orð«, sagði síra Einar Jónsson í þingsetningarræðu sinni 1895, og þá setningu munu allir þingmenn fúsir til að undirskrifa. En þær systurnar Theóría og Praxis eiga nú ekki ætíð samleið í heiminum. Þær fara stundum sín í hvora áttina. Að lofa að greiða atkvæði sitt svo og svo í jafn- þýðingarmiklum málum og þeim, sem eru til meðferðar á alþingi, og svíkjast svo um það rjett á eptir verðum vjer einmitt að kalla samvizkuleysi, og þyki mönnum slíkt fjarri sönnu, þá bendir það óneitanlega á, að tilfinningin fyrir því, sem almennt er kallað samvizkusemi, sje sannarlega farin að verða eitthvað geggjuð hjá þjóð- inni. Og merkilegt er það, að ekkert af blöðunum minnist á slíkt sem þetta,  og vitum vjer þó fyrir víst, að þeim er það  fullkunnugt, að minnsta kosti sumum hverjum.

Viðlíka skortur á sjálfstæði, einurð og drengskap kemur og eigi allsjaldan fram við umræðurnar á alþingi. Það vantar ekki að menn sjeu nógu frakkir í því, að dangla á stjórninni, og ausi á hana hrakyrðum, bæði fyrir það, sem henni er að kenna og ekki að kenna — af því stjórnin er nógu langt í burtu og aldrei heyrir, hvað menn segja. En eigi landshöfðingi eða aðrir nærstaddir embættismenn í hlut, þá vill nú stundum koma annað hljóð í strokkinn. Þá leggja menn optast niður rófuna og verða annaðhvort klumsa eða gera sjer tæpitungu og fara í kringum efnið eins og köttur í kringum heitt soð. Maður getur nú skilið í þessu um embættismennina, en erfiðara er að skilja, hvað bændum gengur til. Og þó er það sannast að sega, að einmitt hjá sumum þeirra kveðurhvað mest að þessum heigulskap og einurðarleysi.

Þó oss væri skapi næst, að minnast á margt fleira athugavert í fari bæði þingmanna og embættismanna — og nóg sje til —, þá ætlum vjer þó að láta hjer staðar numið að sinni, enda stendur það ekki oss næst að gagnrýna alþingi opinberlega. Vjer höfum aðeins viljað benda á, að þörf væri á að gera það, því ef hættuleg átumein fá að grafa um sig óátalin hjá beztu mönnum þjóðarinnar — og menn verða að ætla, að ekki sje valið af verri endanum, þegar verið er að kjósa sjer löggjafa —, þá er öllu þjóðfjelaginu stofnað í voða. Ef svo fer um hið græna trjeð, hvernig mun þá fara um hinn feyskna stofn.

V. G.