Vefáskrift að DV

Ég hef lengi gælt við að kaupa áskrift að DV. Það er nefnilega þannig að þó mér finnist ýmislegt mega betur fara þarna þá er blaðið einfaldlega nauðsynlegt íslensku samfélagi. En ég hef ekki áhuga á að fá pappírinn heim og mér hefur þótt vefáskriftin full dýr.

Núna eru þeir komnir með nýjan díl. Það er vefskrift sem felur í sér aðgang að vefnum en ekki PDF útgáfunni af pappírsútgáfunni. Það kostar 990 kr. á mánuði (fyrstu þrír á 495 kr.) en með PDF skjalinu er þetta 1790. Ég veit ekki alveg hvað það er sem er í þessu PDF skjali sem ekki kemur á vefnum sjálfum en allavega hata ég PDF skjöl og reyndar sérstaklega þegar þau eru sett upp með svona „flettingum“.

En það sem ég skil ekki er hvers vegna menn eru að rembast við þessa prentútgáfu. Ég myndi loka á hana og ganga lengra í því að birta bara útdrætti úr fréttum. Ég myndi síðan bara bjóða upp á tiltölulega ódýra vefáskrift (þúsund krónur eru í hæsta lagi). Síðan ættu þeir að hafa það markmið að fá helming þeirra ríflega 30 þúsund manns sem hafa „lækað“ vefinn til að gerast áskrifendur. Það væri gerlegt ef áskriftin kostaði bara 500 kr. en ólíklegra ef hún er þúsund. En 15 þúsund áskrifendur sem borga 500 kr. gera 7,5 milljónir á mánuði. Síðan leggjast væntanlega einhverjar auglýsingatekjur ofan á þetta. Ég veit svo sem ekki hvað það kostar að reka blaðið (og veit ekki hve mörg stöðugildi eru þarna) en þarna er maður allavega kominn með ágætan grunn. Allavega ef þetta gengur upp.

Kannski er planið hjá DV að gera þetta hægt og rólega frekar en í einu lagi.