Queen II frá 1974 nær öðru sætinu og fær ekki mínusstig fyrir ófrumlegt nafn. Allavega vinnur platan það upp með því að hafa hliðarnar þemaskiptar í svart og hvítt. Svart vinnur. Þó ég sé auðvitað í raun búinn að gefa út hvaða plata lenti í efsta sæti þá byrjum við á að tala um þessa sem var lengst af efst hjá mér.
Procession er forspil plötunnar. Það er víst jarðarfararmars. En já, vel gert.
Father to Son er gott lag en ekki í miklu uppáhaldi. Enn og aftur er Brian í fjölskyldupælingunum.
White Queen (As It Began) er besta lagið á hvítu hliðinni. Textinn fjallar um ást úr fjarlægð sem verður auðvitað til þess að konan, hvíta drottningin er tignuð. Ég held að titilinn á laginu hafi skapað undarlega sögu sem ég hef bara heyrt á Íslandi um að Queen hafi upphaflega heitið White Queen. Hreint yndislegt lag.
Some Day One Day finnst mér alltaf vera framhald af White Queen. Fyrsta lagið sem Brian syngur alveg. Síðan er hann aðallega að spila gítar með sjálfum sér þarna. Flott lag en fellur í skuggann af White Queen.
The Loser in the End er almennt álitið veikasti hlekkurinn á plötunni. Eina framlag Roger í lagasmíðum á plötunni. Ætli það sé ekki að lokum viðhorfið til textans sem veldur því hvort maður fílar það eða ekki? Lagið sjálft er bara flott.
Ogre Battle byrjar svörtu hliðina af krafti. Líkt og þota sé að koma til lendingar. Eitt þyngsta lag Queen með fantasíutexta.
Fairy Feller’s Master Stroke er ekki hægt að gera skil í nokkrum orðum. Sembalspilið í byrjun er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Annars er textinn lýsing á samnefndu málverki eftir Richard Dadd. Snilld og snilld. Alveg snilld. Og það byrjar alveg stórkostlegan kafla á plötunni. Það leiðir inn í… Nevermore sem er yndislega fallegt og æðislegt. Enn og aftur fantasíutexti. Og leiðir inn í kannski mestu snilldina… The March of the Black Queen er forrennari BoRhap. Gríðarlega flókið og margskipt lag. Textinn er áfram í fantasíunni og betri sem samansafn af flottum línum heldur en heild. Snilld og aftur snilld. En tengist síðan í…
Funny How Love is sem er ótrúlega jarðbundið ástarlag, ást er að koma heim á réttum tíma. Mér finnst það stórflott en það passar eiginlega ekki við það sem á undan er komið en myndar hins vegar brú yfir í … Seven Seas of Rhye er ekki besta lagið á plötunni en samt kom það út á smáskífu og er langþekktast. Ágætt en ekki alveg af sama standard og það sem myndaði hápunkta plötunnar.