Við höfðum haft þessa ferð lengi á áætlun en fyrir hana var mikið um vafa og efa. Ég vissi ekki hvort verkfall kennara yrði til þess að ég væri enn að vinna í lok maí. Síðan voru kjaradeilur flugmanna og flugfreyja með verkföllum, vinnustöðvunum og yfirvinnubanni að valda seinkunum og auðvitað því að flug féllu niður. Lukkulega var það flest komið á góðan kjöl þegar við fórum af stað.
Rétt um viku áður en við fórum út kom annað upp sem breytti plönum okkar. Ég kíkti á heimasíðu uppáhaldsbúðarinnar minnar í Svíþjóð, Science Fiction Bokhandeln, og sá þar að Neil Gaiman myndi árita bækur þann 28. maí. Þann dag höfðum við ætlað að vera komin frá Stokkhólmi en þeim plönum var snarlega breytt til að ég gæti hitt minn uppáhaldsrithöfund.
Við lögðum af stað um miðja nótt. Fórum á flugvöllinn og flugum. Á Arlanda vorum við rosalega lengi að fatta að það væri best að fara með Arlanda Express. Við ruddumst í gegnum lestarstöðina og fundum línuna til Sigga og Sigrúnar. Þau tóku á móti okkur þar og hjálpuðu okkur upp þar sem lyfturnar voru bilaðar. Við grilluðum og höfðum það næs út í garði þar sem krakkarnir gátu leikið sér. Hitinn fyrstu daganna var yfirleitt yfir 25°.
Á sunnudaginn fórum við í bakgarð Konunglega bókasafnsins en þar er bæði hægt að slappa af og mjög skemmtilegir leikvellir. Leikvellirnir voru vel nýttir af drengjunum sem og útisturtan. Við borðuðum á ítölskum stað áður en við fórum heim. Um kvöldið spiluðum við.
Á mánudaginn vorum við ekki rosalega fljót að koma okkur af stað. Þegar við komum á aðallestarstöðina keyptum við eitt Stokkhólmskort sem er hægt að nota í almenningssamgöngur og líka inn á mörg söfn. Við keyptum eitt því það hefði ekki borgað sig að kaupa tvö þar sem við ætluðum ekki að fara öll á alla staði. Eftir gönguferð um Gamla bæinn fórum við með sporvagni út á Djurbacken og beint á Skansinn. Við Gunnsteinn nýttum kortið til að komast inn í Akvarium þarna sem er af einhverjum ástæðum með öpum og fleiri óvatnsvæddum dýrum. Gunnsteini þótti lemúrar æðislegir þegar þeir voru að kúra en mér þóttu þeir frábærir þegar þeir voru að klifra á fólki. Ég sannfærði þá þó ekki um að klifra á mér og var Gunnsteinn glaður með það. Þarna voru líka krókódílar og slöngur. Ég reyndi að plata Gunnstein til að pota í slöngu sem mátti pota í en hann sannfærðist ekki. Ég potaði hins vegar mér að meinalausu. Gunnsteinn hafði annars helst áhuga á að láta taka myndir af sér með dýrastyttum.
Við hittum síðan mæðginin fyrir utan og röltum aðeins um. Ég settist niður og ætlaði að gefa Ingimari smá muffinsbita en þá kom páfugl og ætlaði að skoða muffinsið. Ég henti smá bita í burtu sem fuglinn náði í en það gerði hann bara aðgangsharðari. Með smá lagni náði ég að koma okkur undan þessu villidýri. Grísirnir voru það skemmtilegasta sem drengirnir sáu þarna. Eygló og Gunnsteinn stungu síðan af yfir í Grænalundartívolíið (þar sem þau fóru sex sinnum í maríuhænurússíbanann, fimm sinnum í “upp og niður tækið”, einu sinni í óþarflega draugalegu draugalestina og fullt af öðrum tækjum) en við Ingimar röltum meira um. Hann sá þó mest lítið. Ég hafði hins vegar gaman af að sjá úlfa.
Ég og litli enduðum inni í Gallerien inn í bæ og þá vaknaði hann og var hálfóhuggandi þar til ég gaf honum frjálsan aðgang að stafakexi. Annars átti ég líka smástund þarna þar sem ég var að hósta, við vorum öll með einhverja pest allan tímann, og sá fyrir mér að ég væri svona “patient zero” sem kæmi einhverri plágu af stað í Svíþjóð.
Eygló og Gunnsteinn hittu okkur síðan þarna og ég reyndi að nota eitthvað TripAdvisor app til að leiða okkur að ákveðnum veitingastað. Það gekk ekkert því við hoppuðum frá því að vera hundrað metra frá staðnum í að vera komin hundrað metra framhjá honum. Ekkert vit var í þessu. Við enduðum á einhverjum indverskum stað sem var ágætur. Þar náði Gunnsteinn að sofna. Við drifum okkur síðan heim til Sigga og Sigrúnar til að missa ekki af Game of Thrones. Drengirnir voru háttaðir í hvelli og allir settust fyrir framan sjónvarp en þá var enginn þáttur og allir fóru að sofa í staðinn.
Á þriðjudaginn byrjuðum við á Junibacken. Það var voðalega gaman. Þar var hamstrahjól og húsið hans Einars Áskells. Síðan var “lestarferðin” rosalega skemmtileg, þó frekar fyrir foreldrana. Svo var leikið sér í húsinu hennar Línu og horft á leikrit á sænsku sem ég reyndi að þýða jafnóðum fyrir Gunnstein. Hann var mjög áhugasamur þrátt fyrir samhengisleysið.
Eftir þetta hleypti ég Eygló í frí og við feðgar fórum allir í Vasasafnið. Ég gerð ráð fyrir að það yrði snögg ferð þar sem ég myndi benda Gunnsteini á stóra skipið og síðan færum við út. Það var ekki svo. Gunnsteinn heillaðist gjörsamlega og heimtaði að skoða á öllum hæðum. Ég útskýrði fyrir honum sögu skipsins og hann virðist alveg hafa meðtekið hana. Best þótti honum reyndar myndband þar sem sýnt var hvernig var búið til andlit á hauskúpurnar sem hafa fundist í skipinu, hann horfði á það ítrekað. Sneri meiraðsegja við til að sjá það aftur. Honum fannst líka frábært að vera efst í safninu og horfa yfir skipið. Við enduðum með að sleppa að fara í eitthvað sædýrasafn sem er víst þarna rétt hjá af því við vorum svo lengi þarna. Við hittum Eygló aftur í Gallerien og borðuðum á stað sem heitir líklega Edelweiss. Það var merkilega gott og væntanlega eini staðurinn þarna með ætan mat. Við afrekuðum ekki mikið meira áður en við snerum aftur heim til Solna.
Ég vaknaði eldsnemma á miðvikudagsmorgun, eins og við öll alltaf, og stakk af út í Science Fiction Bokhandeln. Þar var ég mættur klukkan 7 um morguninn og líklega númer 15 í röðinni. Það var skítkalt. Ég lifði í von um að sólin myndi ná að hita upp þessa þröngu götu en skýin breiddu fyrir hana áður en það gat gerst. Fyrsta klukkutímann horfði ég á Father Ted í símanum mínum en næstu tvo tíma spjallaði ég við raðfélaga mína sem voru mjög indælir. Ein stúlka kom seint út af einhverjum vandræðum með lestirnar. Ég fékk miða af dagatali en þegar ég spurðist fyrir fékk ég þau svör að það myndi ekki tryggja að ég yrði snemma í röðinni heldur bara að ég kæmist að.
Ég dreif mig til Solna þar sem við tókum okkur saman í rólegheitum. Við tókum allt okkar hafurtask og fórum með í neðanjarðarlest – frá stöð sem var með virka lyftu – og enduðum á aðallestarstöðinni. Þar villtumst við innilega um. Ætluðum að enda þar sem Vasagatan er en fórum þess í stað upp hjá Sergelstorgi. Við fórum bara ofanjarðarleiðina að Vasagötunni og fundum um leið Zocalo (Serrano) en vorum ekki svöng þannig að við stoppuðum ekki. Við náðum að lokum að koma töskum í skápa og kaupa miða bæði frá Stokkhólmi um sexleytið og til Arlanda á sunnudag.
Við röltum næst inn í Gamla bæ og borðuðum á Hurry Curry sem er við hliðina á SF. Ég hafði einmitt fundið staðinn af því ég sat í dyragættinni þar um morguninn. Maturinn þarna var í lagi en ekkert meira en það.
Við eyddum um klukkutíma í SF áður en Gaiman átti að mæta. Á meðan ég beið heyrði ég afgreiðslumann halda því fram að búðin ætti allar bækur sem Gaiman hefði skrifað. Ég ákvað að koma með mína hótfyndni og bað um bókina hans um Duran Duran. En ég fékk líka, lukkulega fyrir mig, að vita að reglunum hafði verið breytt og janúar fékk að vera fyrst í röðinni. Í þeirri röð hitti ég indæla bókasafnsfræðinema og spjallaði við. Ég planaði líka myndatökur sem voru að lokum framkvæmdar af starfsmanni búðarinnar. Gaiman var reyndar svoltið seinn en varla honum að kenna. Þetta var síðan allt mjög skipulagt. Ég skrifaði nafnið mitt á post-it miða sem var settur til móts við titilsíðu bókarinnar. Ég valdi að fá áritun á útjaskaða eintakið mitt af American Gods sem er uppáhaldið mitt. Ef ég hefði mátt láta árita tvær bækur hefði ég fengið tvær af Ocean at the End of the Lane og látið árita þær til Ingimars og Gunnsteins.
Þegar kom að mér spurði ég Neil strax hvenær hann kæmi til Íslands. Hann sagði að hann vildi endilega koma en ekkert hefði nokkurn tímann orðið af því. Hann leit við fyrir tíu árum, þá sendi ég honum einmitt tölvupóst, en hafði engan tíma fyrir neitt. Hann sagðist vera hrifinn af öllu íslensku nema hákarli. Ég sagði að hákarlinn væri bara eitthvað sem við gæfum túristum. Ég sagði honum að ef hann kæmi til Íslands gæti hann komið og lesið í skólanum mínum og fengið rakstur og klippingu hjá nemendunum mínum. Hann sagði já við tilboðinu en ég veit ekki hve hátíðlega ég á að taka því. Ég var allavega ógurlega glaður með þetta. Kátur sem skólastelpa.
Við röltum síðan bara á lestarstöðina. Versluðum, fundum okkar lest, fórum af stað og stoppuðum. Það kom í ljós að það voru gríðarlegar tafir á lestunum. Við stoppuðum ítrekað. Stoppuðum lengst í Västerås og hefðum örugglega getað spjallað vel við Eirík Örn ef við hefðum vitað hve löng töfin yrði. Miðað við það sem ég sá þar sem ég rölti yfir í veitingavagninn var stemmingin langbest hjá okkur. Við eignuðumst líka sameiginlegan óvin, mjög fullann gaur sem kom aftur og aftur til að laumast til að reykja, eða reyna að reykja, í enda lestarinnar. Að lokum var hann tekinn fyrir og samviskusamur sænskur drengur og eldri kona tóku hann að sér. Upplýsingagjöf til okkar ill-sænskumælandi var afar takmörkuð en við komumst á leiðarenda, um þremur tímum of seint, til Säter þar sem Anna systir tók á móti okkur.
Það var minni dagskrá í Säter. Fimmtudeginum eyddum við að mestu í Säterdalnum þar sem eru rosalega skemmtileg leiktæki fyrir Gunnstein. Þar er líka húsdýragarður m.a. með lamadýrum. Gunnsteinn fékk að fara á hestbak á smáhesti.
Á föstudaginn fórum við í Kupolen verslunarmiðstöðina, veðrið var ekkert spennandi. Við heimsóttum líka IKEA og drengirnir fengu sér báðir kjötbollur.
Veðrið á laugardaginn var ekkert spennandi þannig að við fórum aftur í Kupolen og versluðum loksins eitthvað. Ég leyfði mér að kaupa Chromecast sem tengir sjónvarp við net/tölvur/snjalltæki. Ég náði að stríða íslenskum stúlkum frekar vel í leikfangabúðinni. Þær voru rétt hjá okkur og önnur spurði hina hvort “fólkið” (við) værum í röð. Ég sagði þá við þær að við værum ekki í röðinni. Fyrst svöruðu þær voðalega eðlilega en skríktu síðan þegar þær föttuðu að ég hefði talað íslensku. Anna systir náði líka að góðum árangri þegar hún fór allt í einu að tala íslensku á fullu við afgreiðslustúlku á Sushistað. Annars Þegar við komum út var veðrið voðalega fínt þannig að við hefðum kannski frekar átt að vera úti.
Eftir lestarreynslu miðvikudagsins höfðum við miklar áhyggjur af því hvernig við myndum komast á flugvöllinn. Anna reddaði okkur breyttum miðum sem fór fjallabaksleið til að fara framhjá vandræðasvæðum. Við fórum með lest frá Borlänge klukkan hálfsjö að morgni og áttum að fara út í Enköping þar sem rúta færi til Arlanda. Við höfðum ekki verið lengi í lestinni þegar allt stoppaði, vandamál með merkjakerfið. En það stóð ekki lengi. Hins vegar leit allt út fyrir að við myndum missa af rútunni. Sérstaklega eftir að við þurftum að stoppa aftur til að lest sem var að koma á móti gæti skipt um teina. Við vorum farin að búa til B-plan um að fara alveg til Stokkhólms og þaðan til Arlanda. En lukkulega hafði átt að vera smá biðtími í Västerås sem var sleppt. Við þutum því áfram og komum nokkrum mínútum of seint til Enköping. Þar notaði ég smá frekju til að ná lyftunni fyrir okkur. Satt best að segja fáránlegt að fullfrískt fólk sem hefði alveg getað farið tröppurnar hafi ætlað að fara í lyftuna á undan fólki með barnavagn.
Rútuferðin hefði getað verið indælli ef ákveðinn farþegi hefði haft vit á að skammta sér rakspíra á hóflegri hátt. Mér þótti fnykurinn yfirgengilegur og held að hann hafi farið illa í Ingimar sem gubbaði. Ég greip lukkulega gubbið í poka og því þurfti engin fataskipti. Á Arlanda höfðum við nægan tíma. Við borðuðum vel á Alfredos. Þegar innritun lauk keyptum við okkur rándýrt vatn/sódavatn og að lokum fengu drengirnir að leika sér á smá Junibacken leiksvæði.
Flugferðin gekk ágætlega. Ég velti fyrir mér hvort það sé kennt í flugfreyjuskólum hvernig maður á að keyra vagninn harkalega í farþega sem sofa við ganginn til að eiga möguleika á að selja þeim eitthvað – allavega lendi ég oft í því. Ég gekk í míluhæðarklúbb þeirra sem hafa skipt um kúkableyju í flugvél.
Ég hafði æft sænskuna aðeins fyrir ferðina og gat skilið töluvert meira en almennt en væntanlega þyrfti ég einhverja mánuði þarna til að ná einhverri færni.
Annars bara þakkir til Sigga og Sigrúnu og Önnu og Martin fyrir að hýsa og hugsa svona vel um okkur.