Ég held ég sé búinn að fylgjast með Russell Brand lengur en flestir Íslendingar. Ég hef lesið tvær ævisögur hans og þótti önnur þeirra stórskemmtileg. Ég fór á uppistandið hans í fyrra og skemmti mér vel. Mér þykir Brand líka oft skemmtilegur þegar hann er með uppsteyt, t.d. þegar hann skaut á Hugo Boss.
En Russell Brand er ekki pólitískur hugsuður. Hann er hirðfífl. Hann getur stundum afhjúpað valdamenn og er ekki laus við innsæi. Hann skrifaði t.d. ákaflega vel um óeirðirnar í Bretlandi fyrir nokkrum árum enda þekkir hann vel þær aðstæður sem sköpuðu þær.
Bókin Revolution er ekki laus við góðar hugmyndir – hún er bara laus við góðar nýjar hugmyndir. Og hún er uppfull af slæmum hugmyndum. Góðu hugmyndirnar koma aðallega frá hugsuðum eins og Chomsky og Brand viðurkennir það yfirleitt. Vondu hugmyndirnar koma flestar úr nýaldarspekinni sem Brand aðhyllist svo mjög.
Bókin virðist illa rannsökuð. Til dæmis heldur Brand því fram að Júpíter hafi fjögur tungl sem er alveg afskaplega rangt. Síðan eru líka nokkrar vafasamar tilvitnanir í Einstein og ég hef einmitt þá stefnu að álíta allar slíkar tilvitnanir falsaðar ef ekki fylgir vísun í heimildir. Þegar Brand talar um spænska borgarastríðið þá virðist hann ekki skilja neitt um það, ekki bakgrunn þess eða eftirmál.
Það sem ég hef lesið um bókina til þessa hefur verið á þá leið að Brand komi ekki með neinar hugmyndir um að koma “byltingunni” af stað. Það er reyndar rangt. Hann er með eina hugmynd um að koma byltingunni af stað og það er að hugleiða.
Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég hef ekkert á móti hugleiðslu og hef alveg velt fyrir mér að prufa. Hins vegar veit ég vel að þó hugleiðslan myndi kannski koma sér vel fyrir mig þá hefur hún engin áhrif á neitt annað. Það er sama og um aðrar athafnir sem róa hugann, hvort sem það eru bænir eða að horfa á heimskulegar gamanmyndir. Það hefur ekki áhrif nema á og í gegnum mann sjálfan.
Brand vitnar oft í tilraun sem fylgjendur Maharishi Mahesh Yogi gerðu. Þeir hugleiddu tvisvar á dag saman í von um að lækka glæpatíðnina í Washington DC í Bandaríkjunum. Brand heldur að þessi tilraun hafi virkað þannig að glæpatíðnin hafi lækkað um 20%. Vandinn er að það gerðist ekki. Sér í lagi hefur verið bent á að morðtíðni í borginni hækkaði en sá sem gerði tilraunina svaraði þannig að “hrottalegum” morðum hafi fækkað. Það að tala um gagnsemi hugleiðslu til að hafa áhrif á samfélagið er helsta tilraun Brand til að koma með aðferðir til að bylta samfélaginu. Brand má eiga það að hann hæðist að tilraunum þessa sama hóps, sem hann sjálfur tilheyrir, til jógaflugs. Vonandi er hægt að nota tölfræði til að sýna honum að hugleiðslutilraunin er af sama sauðahúsi.
Brand talar nokkrum sinnum illa um vísindin en á sama tíma er honum mikið í mun að reyna að nota skammtafræði til að réttlæta nýaldarspeki sína. Á þeim köflum gretti ég mig töluvert í framan og í heilanum. Mjög vafasöm túlkun.
Versta hugmyndin í bókinni er auðvitað að fólk ætti ekki að kjósa en hún er ekki ný. Það er barnaleg hugmynd sem dæmir fólk einfaldlega úr leik. Stjórnmálamenn eltast ekki við fólk sem kýs ekki. Auðvelt dæmi á Íslandi er auðvitað hvernig lág kosningaþátttaka ungs fólks varð til þess að Píratar fengu ekki það fylgi sem þeir hefðu getað fengið. Auðvitað eru aðstæður aðrar í Bretlandi en þar væri til dæmis miklu betri hugmynd að kjósa Græna flokkinn þar heldur en að sleppa því að kjósa. UKip fólkið kýs. Gamla fólkið kýs. Ef þú kýst ekki þá ertu ekki með og öllum er sama um þig. Flokkarnir reyna frekar að færa sig til þeirra sem munu kjósa (sem er auðvitað ein helst ástæðan fyrir því að í Bandaríkjunum eru tvær hægri flokkar sem öllu ráða). Það þarf auðvitað meiri pistil til að ræða mikilvægi þess að kjósa en ég vil samt segja að það er mikilvægt að reyna að velja skásta kostinn og sætta sig við að stundum líði manni svoltið eins og maður sé skítugur fyrir að taka þátt í þessu.
Það hefði líka verið sterkara hjá Brand að segja fólki að skila auðu eða gera ógilt heldur en að sitja heima. Enginn sér mun á þeim sem sitja heima af því að þeir eru latir og þeim sem sitja heima af því að þeir eru reiðir.
Auðvitað hefði verið gagnlegast ef Brand hefði hvatt fólk til að taka þátt í pólitísku starfi eða hópum sem eru berjast fyrir samfélagslegum breytingum. En það hefði ekki verið nógu einfalt til að ná til fólks sem vill helst láta réttlæta ákvörðun sína um að kjósa ekki.
Bókin er samhengislítil og frekar ófyndin, dáltið eins og seinni ævisaga hans. Brand fer oft á tíðum út um víða völl þannig að lesendur hljóta að hafa misst þráðinn þegar hann snýr aftur að því sem hann var að tala um. Verst er froðuspekin þar sem Brand talar í löngu og flóknu máli til að fela að hann hefur ekkert að segja.
Russell Brand segist hafa farið að ráðum grínistans Robert Webb og lesið smá Orwell en það hefur ekki gagnast mikið því Brand virðist ekki skilja neitt. Það er annars gagnlegt að bera Brand saman við annan breskan grínista, Frankie Boyle, sem talar mikið um stjórnmál. Sá er alltaf tilbúinn að benda lesendum sínum á að hann sé bara grínisti og að hann sé ekki skarpasti hugsuðurinn þó hann sé auðvitað miklu mun skarpari en Brand.
Bókin er líklega hápunktur “slaktivismans” því hún hvetur fólk til að breyta samfélaginu með því að sitja heima á kjördag og sitja á rassinum að hugleiða. Kannski virkar Brand best sem hirðfífl vinstrimennskunnar sem minnir okkur á að lýðræði er fyrir þá sem taka þátt.