Afmælislagið og höfundaréttur

“Happy Birthday” er ekki í höfundarétti í Bandaríkjunum. Í mörg ár hefur fyrirtæki nokkuð rukkað fyrir notkun á laginu án þess að eiga í raun réttinn. Dómur hefur verið kveðinn upp. Þetta er frábært. Reyndar hafa margir brandarar orðið til þegar fólk hefur komið sér undan því að nota lagið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Uppáhaldsdæmið mitt er þessi klippa úr Community (hún er birt með vísun í 14 gr. höfundalaga en Facebook bannar mér að setja þetta inn þar af því að þeir taka hvorki tillit til “Fair use” eða íslenskra höfundalaga). Horfið. Hún er fyndin. Það sem er best er að innri lógík sögunnar skýrir algjörlega hvers vegna lagið er ekki sungið.

Ef við trúum opinberu sögunni um hver skrifaði texta lagsins þá er textinn ennþá í höfundarétti til ársins 2017 á Íslandi og öðrum löndum sem fylgja líf+70 reglunni. Meintur höfundur textans, Patty Hill, lést 1946 og því er rétturinn enn í gildi. Ástæðan fyrir því að rétturinn er ekki í gildi í Bandaríkjunum er að formsatriðum um skráningu höfundaréttar var ekki fylgt En dæmið er ennþá skemmtilegra. Væntanlega er íslenska þýðingin af textanum líka enn í höfundarétti. Þýðingin er samt munaðarlaus því enginn virðist hafa eignað sér hana. Líklega er þetta frægasta munaðarlausa verk á íslensku sem er enn í vernd. Til þess að þýðingin væri komin úr höfundarétti þyrfti þýðandinn að hafa látist í síðasta lagi árið 1944. Elsta vísunin sem ég hef fundið í textann er frá sjöunda áratugnum. Það er því mjög ólíklegt að þýðandinn hafi verið látinn svona löngu fyrr.

En áfram er þetta flókið. Þýðandinn hefur væntanlega ekki fengið leyfi fyrir þýðingunni á sínum tíma. Þýðingin hefur því væntanlega verið óheimil. Nema reyndar að það hafi gerst áður en Ísland gekkst undir Bernarsáttmálann. Ég veit samt ekki til þess að ólögmæti þýðingar ógildi höfundarétt þýðandans.

Ef við tölum mál höfundarétthafa þá þýðir það að í hvert skipti sem maður syngur íslenska textann þá er maður að stela af rétthöfum og þýðandanum! Það að það séu einhverjir tæknilegir erfiðleikar við að borga þeim gerir það bara alls ekki í lagi að stela svona. Skilst mér.

Auðvitað er hægt að segja að flutningur textans sé sjaldnast í gróðaskyni (nema auðvitað barnsins sem vill fá gjafir og gestanna sem vilja kökur) eða að þetta sé einkanotkun en síðustu ár hefur einmitt verið harkalega ráðist að réttinn sem fólk hefur til að gera hluti án ágóða og þrengd skilgreiningin á einkanotkun.

Aftur að afmaelis. Ég er að nota hana til að sýna hve sniðugir þessir þættir eru í samhengi umfjöllunarefnis míns. Þetta er innan við hálf mínúta af rúmlega 20 mínútna þætti. Það er enginn að tapa á þessu. Samt stoppaði Facebook mig í að hlaða þessu upp. Það er fullkomlega galið.

Það þarf án efa að laga til höfundalögin og svokallaðir rétthafar mega ekki bara ráða öllu bara af því að þeir eiga peninga og geta ráðið lögfræðinga.