#Kommentakerfið – Lokametrarnir á Karolina Fund

samsaeriNú er söfnunin mín a Karolina Fund á lokametrunum. #Kommentakerfið hefur náð lágmarkinu. Það mun koma út. Nú er augljóslega tíminn til að velta fyrir sér hvað ég hefði getað gert betur og velta mér upp úr því.

Stóra erfiða spurningin er auðvitað grunnmarkið. Ég var lengst af að velta fyrir mér að hafa það 6000 evrur en lækkaði það í 5000. Nú er ég kominn vel yfir það og fólk gæti sagt að ég hefði átt að hafa hærra mark. Ég er ekki viss. Ég setti markið og bjóst við að ná því ekki bara heldur fara yfir það. Það er ekkert sem segir að sami skriður hefði komist á söfnunina ef ég hefði sett hærra mark. Kannski hefði ég bara skriðið yfir lágmarkið.

Næst stærsta spurningin var síðan hve hátt verð ég ætti að rukka fyrir hvert spil. Ég setti frekar hógvært mark. Ég græði líklega ekkert strax en get gert það með sölu í búðir. Ég veit ekkert hvað það verður mikið en það verða líklega þolanleg mánaðarlaun miðað við hve verkefnið hefur verið skemmtilegt.

Ég setti aukamarkmið, annars vegar 15.000 evrur og hins vegar 30.000 evrur, ef þau hefðu náðst þá hefði ég fjölgað spilunum í kassanum. Það lítur út fyrir að þau muni ekki nást. Í mínum huga er enginn spurning að ég hefði ekki getað haft þau mörk lægri. Það var bara stærðfræði. Allir hefðu grætt ef þetta hefði náðst en lægri mörk hefðu mögulega komið í bakið á mér.

Almennt held ég að kynningarmálin hafi tekist vel. Margir fjölluðu um spilið. Það eina sem pirraði mig var að Facebook var með leiðindi með auglýsingarnar. Tvisvar var ég búinn að fá samþykkta auglýsingu, sem átti að byrja á miðnætti, sem síðan var hafnað seinna (fyrir of mikinn texta).

Það sem ég gerði verulega rétt var að fá góða hugmynd. Það er ekkert sem er betra en það.

Yfir heildina er ég sumsé bara sáttur við allt en ég mun samt vaka til miðnættis og endurhlaða síðunni eins og ég gerði við Ugluna þegar ég var að bíða eftir einkunn sem réð hvort maður fengi námslán.