Kjósum betur

Í dag kjósum við. Ég ætla að kjósa VG – enda er ég í framboði í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ég treysti VG best fyrir menntamálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum og, síðast en ekki síst, loftslagsmálum.

VG er ekki fullkominn flokkur. Ég játa það alveg. En mér finnst samt valið mjög skýrt. Fólk segir að slagorðið “Gerum betur” segi ekki nóg en ég hef allavega mínar eigin skýringar á því. VG getur gert betur en núverandi ríkisstjórn en VG getur líka gert betur en í ríkisstjórninni 2009-2013. Allavega ef flokkurinn fær nægan stuðning. Í þeirri ríkisstjórn þurfti að takast á við ótrúlega mörg og erfið mál en það tókst nægilega vel til þess að leggja grunn að uppgangi síðustu ára.

Sá uppgangur hefur ekki verið nýttur í neitt af viti. Það er einkavæðing í mennta- og heilbrigðiskerfinu og niðurskurður í velferðarmálum. Það er grátlegt.

VG þarf tækifæri til að stjórna í uppsveiflu og byggja upp menntakerfið, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið. Ég treysti engum betur í það verkefni.

Ég vona að VG leiði ríkisstjórn með Pírötum og Samfylkingu. Það væri óskastaða. Það væri langbest ef þú myndir kjósa VG. En ef þú ert heitur ESB-sinni þá geturðu kosið Samfylkinguna. Ef þér finnst VG ekki nógu dugleg í stjórnarskrármálum þá geturðu kosið Pírata.

Ef þú kýst Sjálfstæðisflokkinn þá skil ég þig ekki – nema að þú sért milljónamæringur sem hatar fátækt fólk. Ef þú ætlar að kjósa Miðflokkinn þá bið ég þig um að finna leið til að gera atkvæðið þitt ógilt eða bara kjósa Framsókn í staðinn. Ef þú vilt Viðreisn þá ættirðu eiginlega frekar að kjósa Bjarta framtíð (sami flokkur með færri milljónamæringum).

Eða kjóstu bara VG. Það er langbesti kosturinn.