Cork – Dublin – Queen+ Adam Lambert

Uppáhaldsmyndefnið mitt í Cork. Brian Boru brú.
Uppáhaldsmyndefnið mitt í Cork. Brian Boru brú.

Þegar tónleikaferð Queen+ Adam Lambert um Evrópu var tilkynnt fór ég strax að plana að fara á tónleika. Við Eygló pældum í að fara saman en við ákváðum að ég myndi bara fara einn. Þá var líka augljóst að velja Dublin. Ég hafði nefnilega ekki komið til Írlands, allavega lýðveldisins, síðan árið 2007 þegar ég var þar eina önn í University College Cork.

Með hjálp góðs fólks á Queenzone náði ég að næla mér í miða á besta stað, standandi á svæðinu í kringum sviðið. Ég var að vona að ég gæti flogið til Cork og síðan til baka frá Dublin en WOW flaug bara til Cork út október og tónleikarnir voru 25. nóvember. Ég bókaði því flug til og frá Dublin. Ég sleppti því að borga aukalega fyrir að innrita tösku en splæsti smá aukapeningum í fótapláss.

Þannig að á fimmtudaginn var þá vaknaði ég um klukkan þrjú um nóttina til að taka leigubíl og síðan rútu út á flugvöll. Það var dásemd að innrita sig bara í símanum og rölta síðan með bakpokann í gegnum öryggisleitina. Ég var reyndar tekinn sérstaklega fyrir og leitað að leyfum af sprengjugerðarefnum á mér. Áhugavert að ég er reglulega tekinn í svoleiðis tékk en aldrei athugaður í tollinum. Sumsé, ekki smyglari en kannski hryðjuverkamaður.

Ég afrekaði ekkert á flugvellinum enda of þreyttur og róandi töflurnar sem ég er með við flughræðslunni gerðu mig ekki hressari. Þegar ég kom í vélina þá tók ég upp ferðakoddann minn og stillti á podcastið Sleep with Me sem er sérstaklega ætlað til að hjálpa fólki að sofa. Saman svínvirkaði þetta allt og ég tók varla eftir flugferðinni.

Ég hafði smá tíma í Dublin og gerði heiðarlega tilraun til að kaupa mat. Hann var ekki góður. Það er margt til að elska við Íra en matargerðarlistin er ekki lystug. Þar sem ég beið eftir rútunni til Cork hitti ég dreng sem hafði misst af flugvélinni sinni af því að hann vissi ekki, frekar en ég, að Írar eru orðnir svo hrifnir af Þakkargjörðarhátíðinni að umferðin er gríðarleg á þessum degi. Rútan kom og ég hoppaði um borð. Það var svona þriggja tíma ferð en svæfandi podcast og áframhaldandi þreyta gerðu þetta bara notalegt.

Í skuggasundinu þar sem ég hitti Carlos svo oft.
Í skuggasundinu þar sem ég hitti Carlos svo oft.

Þvílík og önnur eins skrýtin nostalgía var að koma til Cork. Ég rölti beint á hótelið og fór þar sama húsasund og ég fór alltaf á leiðinni heim á stúdentagarðana mína. Þar var enginn Carlos en samt einhver að betla þar. Hótelið mitt var um fimmtíu metrar frá mínu gamla heimili og var mjög gott. Ég fleygði af mér farangrinum og fór út að rölta.

Hluti af ferðamálamarkaðsherferð.
Hluti af ferðamálamarkaðsherferð.

Fyrsta stoppið var í Dunnes Store af því að Eygló hafði beðið mig um að líta þar eftir toppum sem hún var svo hrifin af. Ég fann þá og keypti. Ég keypti líka buxur á mig. En síðan var ráfað áfram.

Ég var glaður að finna Centra á Oliver Plunkett stræti. Sú búð var í uppáhaldi. Ég var ennþá glaðari að sjá að þar var ennþá langlokubar. Ég reyndar klúðraði og bað fyrst um samloku en leiðrétti mig síðan og bað um roll. Ég var auðvitað fyrst spurður hvort ég vildi smjör eða majónes. Ég valdi smjör, síðan kjúkling (cajun), stuffing (sem ég veit ekki nákvæmlega hvað er), ost og sæta chili sósu. Það er töfrablandan sem ég gat alltaf treyst á í þessu matargerðartómi sem Írland er. Og þetta var bara eins og þetta var GOTT.

Auglýsing sem sýnir húmor Corkbúa dálítið vel.
Auglýsing sem sýnir húmor Corkbúa dálítið vel.

Ég skoðaði í hinar og þessar búðir. Alls staðar var auglýstur svartur fössarri. Ég var hneykslaður á Írum að vera jafn ófrumlegir og Íslendingar. Afrek mín á þessum degi voru ekki mikil. Það var gaur að kyrja Echo, Echo, Evening Echo en það var ekki sami gamli kall og var fasti þarna fyrir tíu árum. Geisladiska og dvd-búðirnar sem ég sótti hart á sínum tíma voru allar horfnar. En ég fann skemmtilega túristaauglýsingu þar sem Íslendingar voru boðnir Velkomin í Cork. Það var greinilega hluti af stærri herferð.

Cork er stolt af sínum óþokkum.
Cork er stolt af sínum óþokkum.

Það sem var verst að sjá var allt heimilislausa fólkið. Fyrst þegar ég sá fólk sem hafði komið sér fyrir í svefnpokum í skotum fyrir framan verslanir datt mér í hug að þetta væri fólk sem vildi ná bestu tilboðunum þegar búðirnar opnuðu daginn eftir en ég sá fljótt svo var ekki. Þetta var orðið svo miklu verra en fyrir tíu árum. Miklu fleiri betlarar og miklu fleiri heimilislausir.

Dagurinn endaði á hótelinu þar sem ég fór í sturtu og horfði á The Punisher.

Ég tók föstudaginn rólega. Ég gerði heiðarlega tilraun til að borða írskan morgunverð en fyrir utan bakaðar baunir, egg og beikon þá var þetta óætt ógeð. Ég tók því sem smá bröns á skyndibitastað í miðbænum. Falafel.

En meginmarkmið dagsins var að fara í hádegismat með Cliona sem kenndi mér þjóðfræði fyrir tíu árum. Við höfum haldið sambandi í gegnum árin. Það var sama skrýtna tilfinningin að ganga í skólann. Sviðsmynd lífs míns eina önn fyrir tíu árum. Ég trítlaði aðeins um. Tók mynd af mér með nýrri brjóstmynd af helstu hetju UCC, honum George Boole. Graham Norton er hins vegar frægasti fyrrverandi nemi skólans.

Aðkoma háskólans míns gamla er falleg. Hliðið,
Aðkoma háskólans míns gamla er falleg. Hliðið,
brúin,
brúin,
gróðurinn
og áin.
og áin.
Þessi stytta af George Boole er ný.
Þessi stytta af George Boole er ný.
Aðalbyggingin
Aðalbyggingin
Skjaldarmerki háskólans. Þar sem Finbar kenndi skal Munster læra.
Skjaldarmerki háskólans. Þar sem Finbar kenndi skal Munster læra.

  Ég labbaði um gömlu fallegu aðalbygginguna meðan ég beið eftir Cliona. Þar eru frægir steinar með fornri írskri stafagerð sem heitir Ogham.

Cliona fór síðan með mig upp í matsal starfsfólks sem er glæsilegur og gamaldags salur. Við borðuðum súpu í skugga Viktoríu drottningar. Það var sumsé stytta sem var upphaflega á gafli byggingarinnar (sem hét upprunalega Queen’s College Cork) en var tekin niður þegar Írland fékk sjálfstæði. Styttan var síðan grafin niður en síðan grafin aftur upp í lok síðustu aldar. Hún situr núna þarna og horfir á kennarana og heiðraða gesti þeirra borða. Hún er líka fræg fyrir hve ung Viktoría var þegar styttan var gerð.

Dómshúsið. Á tröppum þess kvaddi ég flesta Cork-vini mína fyrir tíu árum.
Dómshúsið. Á tröppum þess kvaddi ég flesta Cork-vini mína fyrir tíu árum.

Þegar ég var í Cork þá voru vinir mínir meira og minni aðrir erlendir nemar þannig að Cliona er helsta mannlega tenging mín við borgina. Við áttum langt og gott spjall um hitt og þetta. Hún hvatti mig áfram í heimildarmyndargerð og sagði mér að koma til þeirra og sýna hana þegar hún verður til. Mér fannst það vel boðið.

Ég átti ekki mikið eftir af Cork-dvölinni en ég ákvað að kaupa peysur á strákana þó það myndi þýða að ég þyrfti að kaupa auka handfarangursheimild á leiðinni heim. Það rigndi dáltið vel á föstudeginum sem rifjaði upp gamla tíð. En ég ráfaði líka bara mest. Síðan hótelið, pakka og sofa.

Það er svolítið undarlegt að þó ég hafi búið við Kent lestarstöðina í Cork þá fór ég þarna í fyrsta skiptið í lest þar.
Það er svolítið undarlegt að þó ég hafi búið við Kent lestarstöðina í Cork þá fór ég þarna í fyrsta skiptið í lest þar.

Ég vaknaði snemma á laugardagsmorgun. Skráði mig út af þessu fína gistiheimili og trítlaði þessa örfáu metra á lestarstöðina. Það var reyndar sjokk þegar ég kom í lestina og sá að ég hafði klúðrað einhverju þegar ég pantaði þannig að sætið mitt sneri aftur. Ég var skíthræddur um að ég fengi mígrenisógeð en sólgleraugun björguðu mestu.

Frá lestarstöðinni í Dublin tók ég sporvagn, Luas, í átt að gistiheimilinu. Vagninn var reyndar troðinn og ég með bakpoka á mér sem ég gat ekki losað vegna þrengsla. Fólk rakst endalaust í mig lítil gömul kona muldraði alltaf illilega og ýtti í mig ef ég kom of nálægt henni.

Þegar ég fór úr sporvagninum þá ákvað ég að treysta á Google Maps til að leiðbeina mér. Það voru mistök að treysta forritinu of mikið í Dublin því ég náði aldrei að átta mig. Það er svo nauðsynlegt þegar maður er að læra að rata. En ég endaði á gistiheimilinu og var sagt að herbergið mitt yrði laust eftir 20 mínútur. Ég hugsaði með sjálfum mér að það væri bara fínt. Ég ákvað að hoppa út að reyna að finna mér æti.

Ég hafði spottað út veitingastað með fína dóma en fann hann bara alls ekki. Að lokum kom í ljós að hann var inn á hóteli og ekkert merktur utan frá. Síðan þegar ég kom inn þá var enginn matur framreiddur þar inni heldur inn á barnum þannig að ég fór á barinn en enginn sýndi mér áhuga þar. Ég var búinn að sóa of miklum tíma og hélt að hótelherbergið mitt væri orðið tilbúið þannig að ég fór bara aftur þangað.

En hótelherbergið var ekki til. Tuttugu mínúturnar tvöfölduðust. En ég fékk lykilkortið mitt og náði að koma mér inn á herbergi og fleygja öllum óþarfa af mér. Næst var að koma mér niður í bæ og kíkja á nokkra staði sem ég var spenntur fyrir.

Ég kom mér niður í bæ og kíkti í búðir. Ég lenti í veseni með kortin mín í einni búð og þurfti að fara í hraðbanka til að redda mér. Ég kom sigri hrósandi aftur í búðina og glotti yfir því að geta sannað fyrir afgreiðslumanninum að ég ætti í raun og veru peninga til að láta þá fá. Ég fékk mér beikon og ostafranskar á stað sem heitir Eddie Rockets og þá rifjaðist upp fyrir mér að við Eygló hefðum örugglega borðað þar, fyrir eiginlega akkúrat nákvæmlega upp á dag (!) tíu árum, og fundist óspennandi.

Í bókasafninu í Trinity College
Í bókasafninu í Trinity College

Á leiðinni úr bænum náði ég að ruglast á áttum með hjálp Google Maps. En ég náði að finna Trinity College þar sem ég kíkti snöggt á Book of Kells en mér fannst eiginlega meira spennandi að kíkja á bókasafnið fræga. Það var ógurlega fyndið í bókasafnsfræðinni í gamla daga að tala um stærð bóka sem grundvöll flokkunarkerfis en þarna er kerfið bókstaflega þannig. Öllum bókum raðað eftir stærð og staðsetningin síðan skráð til að geta fundið bækurnar.

Ég var í stuði fyrir smá drama þannig að ég spilaði Óðinn til gleðinnar meðan ég rölti þarna um. Ég náði að láta einhverjum grey konum bregða með því að smella fingrunum ósjálfrátt í takt við tónlistina. En þetta var sumsé svolítið flott.

Næsta skref var að finna mér eitthvað gott að borða fyrir kvöldið. Ég ákvað að finna næstu Centra verslun og kaupa mér langloku. Ég notaði Google Maps og fann rétta staðinn en þá var komin Spar verslun í staðinn fyrir Centra. Ég setti því næstu Centra verslun sem áfangastað og sú var á sínum stað en samlokubarinn lokaður. Ég hafði því ekkert nesti fyrir kvöldið.

Ég kom mér aftur á hótelið Jacobs Inn til að henda af mér drasli. Þegar þangað var komið virkaði ekki lykilkortið. Ég þurfti að fara aftur niður og láta strauja það aftur. Þegar ég var aftur kominn í herbergið var engin handsápa. Ég hugsaði með mér að ég gæti þá bara notað sjampó eða baðsápu til að þvo mér um hendurnar. En nei. Engar slíkar sápur heldur. Bögg.

Ég kom mér síðan af stað í átt að tónleikahöllinni með einungis eina flösku af sódavatni í nesti. Þegar ég kom að 3Arena þá sá ég að það var sölubás þarna en ég sá ekkert spennandi og þar að auki var ekki í boði að borga með korti og ég átti bara fimmevruseðlil eftir.

Fyrir utan 3Arena
Fyrir utan 3Arena

Ég fór því bara í röðina. Hún var ekki löng en það var um klukkutími fyrir opnun. Ég spjallaði örlítið við fólkið þarna úti. Hitti tvær gamlar bandarískar konur sem virtust hafa ferðast um allan heim til að sjá Queen+. Þegar á leið vorum við beðin um að kynjaskipta röðinni til að láta káfa aðeins á okkur. Það voru fleiri karlar að káfa og okkur var öllum hleypt framar í röðina. Við reyndum margir að rýma svolítið til svo konurnar gætu komið sér aftur á sinn stað í röðinni en okkur var skipað að þétt okkur fram á við. Þannig að það voru aðallega karlar fremst.

Beint fyrir framan sviðið.
Beint fyrir framan sviðið.

Þegar okkur var hleypt af stað þá var okkur bannað að hlaupa þannig að þetta var eins og ólympíukeppni í hraðgöngu. Ég kom mér inn og tók mér stöðu fremst við sviðið – plássið í kringum rampinn fylltist fyrst. Reyndar var ég ekki við sviðið beint heldur fyrir framan gryfjuna sem öryggisverðir og ýmis tæki voru í en ég var ekki langt frá sviðinu.

Allt fólkið sem ég var að skyggja á.
Allt fólkið sem ég var að skyggja á.

Ég byrjaði á að setjast. Síðan byrjaði ég að kynnast fólkinu í kringum mig. Þarna var japönsk kona búsett í Dublin með 11 ára strákinn sinn, sem heitir Roger í höfuðið á trommaranum, með sér. Ég gaf þeim upp nafnið á podcastinu mínu. Þá voru líka tvær írskar konur frá Limerick. Önnur þeirra talaði mjög mikið og vildi helst vita hvort ég þekkti Thor. Ég var smá tíma að fatta að hún átti við kraftakarlinn Hafþór. Hún var sjálf systir sterkasta manns Írlands og reyndi að fá mig til að skipuleggja kraftakeppni á Íslandi og Suður-Írlandi. Hún ætlaði líka að segja öllum að hún hefði hitt besta vin sterkasta manns Íslands. Þeim fannst öllum fyndið að ég væri skólabókavörður.

Tónleikarnir byrjuðu um klukkan átta. Ég var mjög varfærinn í tilhlökkun. Stóri munurinn á þessum tónleikum og þeim sem ég fór á árið 2005 og 2008 með Queen+ Paul Rodgers var að þetta var miklu meiri sýning. Það var allskonar skemmtilegt að gerast og þar var vélmennið Frank, sem þið munið eftir framan af plötuumslagi News of the World. Þá er Adam Lambert alveg að leika sér að því að vera “camp”.

Satt best að segja fannst mér langmesta fjörið þegar hljómsveitin spilaði Stone Cold Crazy. Alveg ógurlega flott. Adam er mjög fínn söngvari en það var alveg punktur þar sem röddin hans kippti mér úr notalega ástandinu sem fylgdi tónlistinni og minnti mig á að hann er engin Freddie. Ekkert að honum sjálfum samt.

Við Roger með lagalistann og hann með trommukjuðann sinn
Við Roger með lagalistann og hann með trommukjuðann sinn

Í lok tónleikana þá kom rótari til Rogers litla tónleikafélaga míns og lét hann fá eintak af lagalista kvöldsins. Örskömmu seinna fékk hann líka trommukjuða frá Tyler Warren (sem var í Queen Experience þegar sú sýning kom til Íslands) sem trommar til viðbótar við Roger. Drengurinn var dáltið kátur og ég fyrir hans hönd. Ég kallaði hann lucky little bastard.

Brian í sviðsljósinu
Brian í sviðsljósinu
Roger gat ekki alltaf séð það sem gerðist á rampinum þannig að ég lyfti honum upp svo hann gæti séð trommusólóið hjá nafna sínum. Öryggisvörður bað mig síðan um að setja hann niður þannig að það reyndi ekki lengi á mig. En sá litli var glaður.
Roger gat ekki alltaf séð það sem gerðist á rampinum þannig að ég lyfti honum upp svo hann gæti séð trommusólóið hjá nafna sínum. Öryggisvörður bað mig síðan um að setja hann niður þannig að það reyndi ekki lengi á mig. En sá litli var glaður.
Glambert og Frank
Glambert og Frank
Það að vera fremst við sviðið var mjög gott að flestu leyti en Brian sneri baki í okkur þegar hann spilaði Love of my Life.
Það að vera fremst við sviðið var mjög gott að flestu leyti en Brian sneri baki í okkur þegar hann spilaði Love of my Life.
Brian að pósa fyrir mig
Brian að pósa fyrir mig
Roger að syngja
Roger að syngja
Pappírsstrimlum var skotið í lok tónleika og ég var næstum í skotlínu.
Pappírsstrimlum var skotið í lok tónleika og ég var næstum í skotlínu.
Roger með þeim írsku
Roger með þeim írsku

Þegar tónleikarnir voru búnir var ég svangur og þyrstur. Ég tók eftir nýjum matarvagni. Þar var úrvalið aðeins betra og ég gat keypt lítinn skammt af frönskum og kókdós. Það bjargaði mér alveg. Ég rölti heim meðfram Liffey sem er ekki nærri jafn fögur og Lee og íhugaði að bregða íslenskum tónleikagestum í brún með því að ávarpa þá á hinu ylhýra en ég var alls ekki í spjallstuði þannig að ég sleppti því.

Ég kom loksins að opinni kjörbúð þar sem ég gat keypt mér sódavatn, bæði til að drekka þá og fyrir morguninn. Ég bætti líka við Twixi til að hafa eitthvað svona aukalega ef ég yrði svangur. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvort tónleikarnir hefðu verið góðir. Sú spurning kom svolítið á óvart enda var ég búinn að ganga um kílómeter frá tónleikahöllinni. Afgreiðslumaðurinn spurði mig líka hvort að þetta hefði verið sama hljómsveit og kvöldið áður – bara með öðrum söngvara. Ég fattaði að hann var að vísa í að Queens of the Stone Age höfðu verið að spila þarna á föstudagskvöldið. Ég útskýrði fyrir honum að hljómsveitirnar væru alls ótengdar.

Þegar ég kom á hótelið bað ég um sápu og spurði eftir sjampói. Ég fékk loforð um sápu þó að ég hafi hváð þegar ég heyrði talað um “súpp”. Ég komst síðan ekki inn af því að lykilkortið mitt virkaði ekki heldur núna. Þá fékk ég skýringuna sem gott hefði verið að fá fyrr um daginn – kortið getur afhlaðist við návist við síma. Ég var sjampólaus þannig að ég notaði umrædda handsápu í sturtunni. Hún var ekki einu sinni spennandi af handsápu að vera.

Ég vaknaði um sjöleytið á sunnudagsmorgni. Ég ákvað að prufa létta morgunverðinn á hótelinu. Það kom í ljós að var aðallega ristað brauð og morgunkorn. Ég ákvað að borða bara á flugvelllinum. Ég hafði vandað mig við að velja mér rútuferð frá stað sem var nálægt hótelinu en ég átti greinilega við þann vanda að stríða að rugla saman O’Connell (gata) og Connelly (lestarstöð) þannig að ég þurfti að ganga dálítið til að ná rútunni.

Flugvöllurinn var eitthvað undarlega skipulagður þannig að mér sýndist á merkingunum að ég væri að fara í aðra flugstöð (terminal) en ekki að öryggishliðinu og ráfaði dáltið aukalega um. Írar virðast ekki telja mig líklegan hryðjuverkamann þannig að ég var tiltölulega fljótur í gegn.

Þá ætlaði ég að finna mér eitthvað að borða. Mér þótti allt svo óspennandi að ég ákvað að gefa Burger King séns. Ég valdi mér eitthvað góðgæti sem var síðan ekki til þegar ég kom að kassanum ég bað þá kjúklinganagga í staðinn. Þegar kom að því að borga var báðum kortunum mínum hafnað eins og daginn áður. Ég nennti ekki að eltast við mat sem ég var ekki spenntur fyrir og ákvað að fara nær hliðinu mínu þar sem merkingar bentu til þess að þar væru fleiri veitingastaðir í boði. En þá kom í ljós að þeir voru óspennandi og dýrir. En þá mundi ég eftir Twixinu sem ég keypti kvöldið áður og keypti mér bara sódavatn með og lét það duga til Íslands.

Flugið gekk vel með hjálp lyfja og svefnhlaðvarpsþáttar. Ég er ekkert ósáttur við Wow eftir þessa reynslu. Ég keypti ekkert nema nammi í fríhöfninni. Lukkulega er enginn áhugasamur um að fá sígarettur lengur og Eygló á sjálf vínbirgðir fram í tímann af því að hún drekkur ekki einu sinni það sem hún kaupir sjálf í tollinum.

Lentur
Lentur

Ég tók síðan rútu út í Holtagarða þar sem fjölskyldan tók glöð á móti mér.