Það að hjálpa drengjunum að setja saman Pokémon-bunka í gær kallaði fram margar minningar um það þegar við keyptum okkar fyrstu Magic: The Gathering spil. Var það 1995? Líklega. Við höfðum allavega verið að spila hlutverkaleiki í einhvern tíma áður og það náði hápunkti í kennaraverkfallinu 1995. Þetta voru allavega ég, Starri, Bjössi og Þórður.
Við fengum senda bunka og boostera frá Fáfni (Nexus) og fórum síðan að ákveða hvernig bunkarnir okkar yrðu samsettir og um leið hvað liti við myndum leggja áherslu á. Síðan gátum við fara að skiptast á spilum. Ég valdi grænan og rauðan, eld og jörð.
Við fengum m.a. spil úr Fallen Empires línunni. Ég veit ekki hvort það var á tilboði eða hvað. Allavega eru þessi spjöld ekki hátt skrifuð í sögu MtG, líklega af því að það var framleitt alltof mikið af þeim. Við vissum það ekkert og ég var allavega hrifinn af mörgum FE spilunum sem ég fékk. Þá höfðuðu teikningarnar til mín.
Fljótlega eftir þetta kom Ice Age viðbótin og það litaði stokkana okkar töluvert. Ég safnaði í einhvern tíma en hætti síðan alveg. Aðallega kannski af því að ég nennti ekki að læra endalaust af nýjum reglum sem var bætt við með nýjum spilum.
En ég var kominn með ákaflega góðan stokk, allavega á okkar akureyska mælikvarða. Ég lagði áherslu á spjöld sem höfðu ekki háan kostnað. Þannig að ég var með eldingar og lítil dýr og álfa sem hægt var að setja út fljótt og örugglega áður en andstæðingurinn hafði komið sér af stað. Þetta þýddi reyndar að ég notaði ekki spilið sem hafði verið miðpunkturinn í stokknum mínum til að byrja með, sem ég fékk í fyrstu pökkunum mínum, Force of Nature.
Á þessum árum tók maður reglulegar reisur til Reykjavíkur til að fara í bíó, skreppa í safnarabúðir að kaupa vídeóspólur og síðast, en ekki síst, til að fara í Fáfni og Míþríl.
Ég man að ég var einhvern tímann í Míþríl að kaupa spil. Ég fékk Icy Manipulator og um leið þá kom annar viðskiptavinur, sem vissi greinilega mikið meira en ég um Magic, og vildi skipta til að fá spjaldið. Ég var ekki alveg viss hvað ég ætti að gera af því að ég var vanur að skipta bara við vini mína. En hann hélt áfram að bjóða mér fleiri og fleiri spjöld. Að lokum gaf ég eftir þegar ég fékk einhvern dreka. En mér leið alltaf svo óþægilega af því að ég vissi ekki nógu mikið um verðgildi spila. Ég sá eiginlega eftir þessu og leið ekki einu sinni betur eftir að hafa flett upp verðgildunum löngu seinna og komist að því að ég hafði grætt vel og vandlega samkvæmt þeim.
Ég reyndi fyrir nokkrum árum að kaupa tvo einvígisstokka af MtG en þá kom einmitt upp að það hafði endalaust verið bætt við reglum og ég nennti varla að læra þær. En það kemur fiðringur að sjá drengina prufa.