Ég var á tímabili mikill aðdáandi Cracked. Þegar vefritið var upp á sitt besta birti það ákaflega skemmtilega listafærslur. “Topp tíu…”, “Fimm dæmi um…” og svo framvegis. Margt stórfyndið. Síðan var Cracked selt og fór í ruglið eftir að Facebook plataði þau, og marga fleiri vefi, í að leggja áherslu á myndbönd. Það endaði með að fólk var sagt upp og allir hlekkir sem Facebook-síðan þeirra dældi út hlekkjum á voru gamlar greinar með örlítið breyttum fyrirsögnum. Þannig gafst maður upp á þeim.
En áður en allt fór til fjandans kom Cracked verulega skemmtilega á óvart með því að birta alvöru fréttamennsku frá Írak um baráttunni við ISIS.
Svo liðu nokkur ár og ég var að hlusta á hlaðvarpið Harmontown, sem var mitt uppáhalds. Þá kom gestur að nafni Robert Evans. Ég þekkti ekki nafnið – nema sem kvikmyndaframleiðandann sem frægur er fyrir allskonar fleira en bara kvikmyndaframleiðslu. Þessi Robert Evans var að tala um ferð sína til Rojava (sjálfstjórnarsvæði, eða ríki, Kúrda í Sýrlandi). Þetta var stuttu eftir að fréttir bárust af því að félagi Haukur hefði fallið í bardaga á svæðinu þannig að ég sperrti upp eyrun. Síðan nefndi Evans að hann hefði unnið hjá Cracked og ég fattaði strax að þetta væri sá sem hafði skrifað þessar frábæru greinar á sínum tíma.
Þar sem hann hafði í spjallinu nefnt að hann væri að gera hlaðvörp sjálfur stökk ég til og fann þau. Ég hlustaði fyrst á hljóðbók/hlaðvarp hans um bandaríska fasista – þar sem “Íslandsvinurinn” George Lincoln Rockwell var í aðalhlutverki. Þetta birtist sem hluti af hlaðvarpinu Behind The Bastards þar sem Robert fjallar um ýmsa illvirkja sögunnar með oft skemmtilegum vinkli. Með honum eru ýmsir félagar hans, margir fyrrverandi starfsmenn Cracked en nýlega poppaði hann Spencer Crittenden úr Harmontown líka upp. Robert les handrit og gestirnir spyrja hann út úr ef eitthvað er óskýrt. Síðan er upptökustjórinn Sophie skemmtileg í sínu aukahlutverki að ótaldri henni Anderson.
Fyrir utan BtB er Robert með hlaðvarpið Worst Year Ever með Katy Stoll og Cody Johnston (sem eru líka reglulegir gestir fyrrnefnda varpsins). Þegar þau gáfu þáttunum nafnið var það vísun í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en augljóslega kom í ljós að þetta var best heppnaða hlaðvarpsnafn allra tíma.
Ég mæli með öllu þessu sem ég hef nefnt hér að ofan en ég vil sérstaklega nefna The Women’s War sem er nýlega byrjað. Hlaðvarpið byggir á ferð Robert Evans til Rojava. Það er auðvitað gjörólíkt hinum sem byggja að mestu á húmor sem hefði alveg getað birst á Cracked.
Í The Women’s War er Robert að sem vinstri maður, jafnvel anarkisti ef maður vill flokka hann nánar, að reyna að nálgast tilraunina í Rojave á gagnrýnin hátt. Hans efasemdir minna mig verulega á hvernig ég sjálfur hef hugsað um svæðið. Það er að mörgu leyti eins og draumsýn vinstri manna um möguleikann á minnkaðs vægi kapítalista og jafnréttis, sérstaklega kynjajafnréttis en líka milli Araba og Kúrda.
Ég ætla ekki að greina sérstaklega mínar skoðanir á Rojava – geri það kannski þegar þáttaröðin hefur lokið göngu sinni – en ég ætla að mæla sterklega með þeim. Þetta er áhugaverðasta hlaðvarp sem ég veit af í dag.