Verðskuldandi fólk (um borgaralaun og fleira)

Ég hef mjög blendnar skoðanir á borgaralaunum. Mér vissulega þægilegt að fá svoleiðis. Þá gæti ég einblínt á að koma í verk öllu því sem mig langar að gera en er ekki gróðavænlegt. Ég gæti farið á fullt t.d. í Rafbókavefnum. Ég gæti klárað heimildamyndina mína. Allskonar sniðugt. Ég gæti líka tekið mér tíma til að byggja upp spilaútgáfuna mína og haft grunn til að græða alvöru peninga.

Mér finnst það líka góð hugmynd að losa fólk undan þeim kvöðum sem felst í því að skrá sig atvinnulaust eða berjast við að fá örorku viðurkennda – hvað þá að fá einhvern styrk í gegnum t.d. sveitarfélögin. Þú værir með einhvern ákveðinn punkt sem tryggir grunnframfærslu.

En við vitum að það er nógu erfitt að ákvarða hvað t.d. atvinnulausir og öryrkjar eiga að fá til að lifa af. Um leið kemur spurningin hvað fólk “verðskuldar”. Verðskulda allir atvinnuleysisbætur? Svarið sem kerfið gefur er nei. Ef þú hefur t.d. ekki unnið nógu marga mánuði á ákveðnu tímabili þá færðu ekkert eða skertar greiðslur.

Það sama gildir um öryrkja. Kerfið setur fólk í reiknilíkan og segir þeim að það verðskuldi ákveðið hlutfall af hæstu upphæð. En ef einhver er metinn 50% öryrki þá þýðir það ekki þú getir gengið inn í hálft starf sem hentar þér á móti. Hvorki markaðurinn né hið opinbera tryggir slíkt. Ferðu þá á atvinnuleysisbætur á móti? En þegar þær renna út? Færðu þá styrk frá sveitarfélaginu? Fólk rúllar á milli í kerfinu sem reynir að meta hvort það verðskuldi eitthvað.

Sú hugmynd að það sé hægt að meta hvort fólk verðskuldi eitthvað, hvort sem það sé vegna atvinnuleysis, örorku eða bara fátæktar er gölluð. Vissulega getum við alltaf fundið fólk sem allir geta verið sammála um að séu verðskuldandi en við missum um leið í sprungurnar fólk sem vissulega þarf á hjálp að halda.

En hverjir verðskulda ekki hjálp? Þeir sem eiga pening? Þeir sem eiga bakland? Þeir sem þurfa ekki mikið? Glæpamenn? Þeir sem eru ungir? Þeir sem eru gamlir? Á sama hátt og við getum fundið þá sem verðskulda hjálp okkar þá getum við fundið þá sem verðskulda hana ekki.

Grunnvandamálið við hugmyndina um þá sem verðskulda hjálp og þá sem verðskulda ekkert er að við getum aldrei búið til kerfi sem reiknar slíkt út. Þú getur búið til dæmi, og fundið þau, en einstaklingar eru miklu flóknari en að við getum stillt einhverjar breytur og fundið réttu lausnina.

Við getum yfirfært sömu hugmynd á menntun og heilbrigðisþjónusta. Við getum ekki reiknað út hverjir séu “verðskuldandi”. Ættu lugnalæknar að spyrja fólk hvort það hafi reykt áður en þeir ákveða hvort meðferðin verði ókeypis? Mér finnst einfalt að segja nei við þessari spurningu en ég veit að það er til fólk sem myndi segja já.

Það er kannski ágætt að nota reykingar sem dæmi sem upplýsir allt hitt. Ef við viljum úrskurða að reykingafólk verðskuldi ekki meðferð við lungnasjúkdómum þá erum við í mörgum tilfellum að segja að heimskuleg ákvörðun ósjálfráða barns eigi að móta líf þess. Ef vinir þínir byrjuðu að reykja og þú hermdir eftir af því að þú vildir ekki vera útundan þá skaltu borga fyrir þau mistök það sem eftir er ævi þinnar – ekki bara með lélegum lungum heldur beinhörðum peningum.

Við erum auðvitað á hverjum degi að refsa fullt af fólki fyrir heimskulegar ákvarðanir sem það tók á barnsaldri. Ef þú ákveður 16 ára að sleppa framhaldsskóla og fara að vinna þá áttu skilið lægri laun það sem eftir er ævi þinnar. Það skiptir engu máli hvort þetta var ákvörðun eða nauðung. Ef þú hafðir tök á því að halda áfram menntun þinni þá færðu sama dóm og þeir sem vildu bara hafa efni á að hella sig fulla um hverja helgi.

Ég vil taka fram að ég tel líka ósanngjarnt að þeir sem ákváðu að drekka sig fulla um hverja helgi sextán ára þurfi að gjalda þess alla ævi. Við vitum að það geta verið allskyns ástæður á bak við slíkt. Kannski var áfengi eina þunglyndislyfið sem þú hafðir aðgang að. Ég hef líka verið í þeirri stöðu að hjálpa námsfólki sem hafði kannski tekið slæma ákvörðun varðandi menntun sína þegar það var sextán ára. Síðan ákvað menntamálaráðherra að ef þetta fólk væri orðið 25 ára verðskuldaði það ekki annað tækifæri til menntunar. Ég er ennþá reiður yfir því.

Borgaralaun eru sú hugmynd af við verðskuldum öll grunnframfærslu. Ég er hrifinn af þeirri hugmynd en ég á erfitt með að trúa að slíkt gangi í gegn. Ég held að reynslan sýni líka að þar sem þetta hefur verið reynt hefur hugmyndin verið svo útvötnuð að hún hefur orðið t.d. að verri útgáfu af örorkutryggingum. Margir halda að það sé fyrsta skrefið að almennum borgaralaunum en ég sé það ekki gerast með slíkum hænuskrefum. Ég held að þetta sé frekar tækifæri til að gera ómanneskjulegt kerfi verra.