Þegar ég var þrettán ára var ég á kafi í Stephen King. Þar sem ég hafði ekki aðgang að bókum hans á ensku lét ég duga að lesa þær á íslensku. Það var þýdd ein bók ári (töluvert færri en hann skrifaði) þannig að ég gat lesið þær allar.
Furðuflug kom út árið 1992 í þýðingu Karls Th. (Birgissonar) og Guðna Th. (Jóhannessonar). Ég get ekki sagt að þetta hafi verið meðal bestu verka King. Íslenski titillinn er ekki frábær en þó mögulega betri en sá enski. The Langoliers er nóvella og bara ein af fjórum sögum í bókinni Four Past Midnight.
Ég var aðeins farinn að fjarlægjast Stephen King þegar sjónvarpsmynd í tveimur hlutum byggð á sögunni um Furðuflugið kom út árið 1995. Reynsluvísindi gerðu mig ekki spenntari þar sem sjaldan var hægt að treysta á gæði mynda “Stephen King’s …“. Ég sá myndina því aldrei.
Fyrir skömmu heyrði ég af nýrri útgáfu af The Langoliers sem kom fyrir augu almennings árið 2021.
Tölvutæknin hefur gefið venjulegu fólki aðgang að tólum til að klippa myndefni. Sumir hafa nýtt þá tækni til að búa til eigin útgáfu af kvikmyndum. Frægast er að ýmsir aðdáendur Star Wars hafa gert eigin útgáfur af The Phantom Menace (og öðrum hinum myndunum úr seinni seríu George Lucas). Aðallega hefur þetta var gert til að losna við eina persónu sem hefur valdið óhug eldri áhorfenda.
The Timekeepers Of Eternity er töluvert frumlegri en aðrar aðdáendaútgáfur af kvikmyndum enda gerð af manni sem hefur leikstýrt eigin kvikmyndum. Sjónvarpsmyndin The Langoliers var samanlagt um þrír klukkutíma að lengd. Skrýmslin er búin til með tölvubrellum sem voru frekar slakar á síns tíma mælikvarða en bókstaflega hlægilegar í dag. Ég kíkti á hana á YouTube og get ekki ímyndað mér að horfa á hana í heild sinni.
Aristotelis Maragkos tók þessa gömlu sjónvarpsmynd og bjó til klukkutímalanga útgáfu sem er frábær. Hann prentaði út hvern ramma* í svarthvítu og reif síðan og/eða krumpaði pappírinn eftir þörfum. Hann tók síðan myndir af þessum blöðum og bjó til The Timekeepers Of Eternity. Þó ég vilji helst ekki höskulda myndina fyrir fólki þá er rétt að nefna að þessi aðferð er viðeigandi vegna hegðunar einnar persónunnar. Það að nota útprentun til að búa til kvikmynd hljómar eins og galli en það er í raun styrkleiki.
Í grunninn er þetta sama sagan. Það er hægt að horfa á myndina án þess að þekkja bók eða upprunalega kvikmynd. Ef þú fylgist vel með gætir þú fattað þig á að sumar persónurnar hafa nær ekkert að gera. Þær eru meira og minna í bakgrunninum en koma meira fram í þriggja klukkutíma útgáfunni. Ég held samt að það sé lítils að sakna.
Á vissan hátt er The Timekeepers Of Eternity eins og listræn tilraunamynd. Hún er skrýtin. Að mörgu leyti er hún framhald af klippimyndaverkum sem við þekkjum úr myndlist. Málið er samt að hún virkar. Það er allt úthugsað. Mér dettur ekki í hug að horfa á The Langoliers en ég get mælt með þessari.
Augljóslega er The Timekeepers Of Eternity á vafasömum slóðum út frá höfundalögum og sýnir hvernig lögin geta hamlað listsköpun. Hún hefur verið sýnd opinberlega og verið aðgengileg á vefnum en það er erfitt að finna hana í dag án þess að sigla um flóa sjóræningja. Það virðist öllum rétthöfum vera sama þó The Langoliers sé aðgengileg á YouTube. Það er varla hægt að græða krónu á henni í dag. Mögulega einhverja aura. Lagaumhverfið þyrfti að leyfa svona tilraunir í sköpun.
* Segir sagan. Ég er ekki 100% að kaupa að hann hafi gert þetta allt handvirkt.