Sannsöguleg¹ kvikmynd um baráttu Elliott Ness og hinna ósnertanlegu við að koma Al Capone á bak við lás og slá.
Brian De Palma leikstýrir. Kevin Costner leikur Elliott Ness. Robert De Nero er Al Capone. Sean Connery er gamla götulöggan Malone sem kennir Ness að vera lögga í Chicago. Andy Garcia er unga löggan. Charles Martin Smith er talnaglöggi gaurinn frá Washington. Patricia Clarkson er eiginkona Ness og móðir ímyndaðra barna hans.
Billy Drago er Frank Nitti sem var í alvörunni hálfgerð skrifstofublók en er hérna sýndur sem helsti morðingi Capone. Það eru líka mörg kunnugleg andlit í myndinni. Borgarfulltrúi sem reynir að múta Ness er leikinn af Del Close sem er frægastur fyrir áhrif sín á „spunagrín“ (improv).
Upphafstitlarnir í The Untouchables eru einhverjir þeir flottustu í kvikmyndasögunni. Auðvitað er tónlistin lykilatriði. Eftir myndina endurómaði Gunnsteinn hugsanir mínar þegar hann sagðist ekki vera viss um hvort myndin væri frábær eða hvort tónlistin hefði bara sannfært hann um það.
Ennio Morricone er auðvitað eitt helsta tónskáld kvikmyndasögunnar. Stundum velti ég fyrir mér hvernig samvinna hans við De Palma hefði verið því það eru skot í The Untouchables sem minna á spagettívestra Sergio Leone og þar fannst mér Morricone leyfa tónlistinni að undirstrika það.
Þegar á leið myndinni fattaði ég að ég hefði klúðrað kvikmyndauppeldinu. Ég hafði fyrir löngu síðan ákveðið að sýna Gunnsteini Beitiskiptið Pótemkin áður en við færum á The Untouchables.
Þegar ég var líklega í tíunda bekk var myndin Naked Gun 33⅓: The Final Insult ný og einn kennari ákvað að taka okkur í smá kvikmyndafræðslu. Á mjög yfirlætisfullan hátt var okkur sagt að við föttuðum sko alls ekki alla brandarana í myndinni, til dæmis hefði atriðið í tröppunum upprunalega verið í The Untouchables.
Þetta var stór gott tækifæri til að svara á yfirlætisfullan hátt að þó að Naked Gun 33⅓ væri vissulega að vísa í mynd De Palma þá kæmi upprunalega atriðið frá sóvesku myndinni Beitiskipið Pótemkin. Mig langaði að segja þetta þó ég hefði reyndar aldrei séð þá upprunalegu. Stundum hafði ég vit á að þegja.
Það er ekki verið að fela vísunina í Pótemkin í The Untouchables. Það eru til dæmis fjölmargir sjóliðar² í lestarstöðinni sem fara upp og niður tröppurnar. Atriðið er auðvitað klassískt og sýnir að De Palma er frábær leikstjóri. Spenna og drama.
Það eru samt klunnaleg atriði sem veikja The Untouchables. Þar má nefna eldspítnabréfið og kannski sérstaklega hvernig réttarhaldinu lýkur. Aðeins of kjánalegt. Við getum líklega kennt handritshöfundinum David Mamet um en hann var örugglega óánægður með myndina því flestir leikarar myndarinnar reyndu að gefa eitthvað af sér í stað þess að þylja bara upp línurnar hans.
Það er auðvitað frægt að hreimur Sean Connery í The Untouchables er vandræðalega lélegur. Hann á að vera Íri en hljómar eins og Skoti. Og þó. Í þetta skiptið fylgdist ég með og ég held að það sé bara persóna Andy Garcia sem kallar Malone írskan og það er í fyrsta skiptið sem þeir hittast.
Það er líka ekkert ósennilega að jafnvel þó Malone teldi sig írskan þá væri hann uppalinn í Skotlandi. Þannig að í þessu tilfelli dæmdi fólk Connery kannski of harkalega.
Við áhorfið rifjaðist upp fyrir mér ein undarleg þýðing sem var á sínum tíma í íslenska textanum á The Untouchables. Einn glæponinn er að hvetja Ness til að handtaka sig en þýðingin var „áreittu mig“. Þýðandinn heyrði greinilega „harrash me“ en ekki „arrest me“.
Maltin gefur ★★★★
Óli gefur ★★★★⯪ 👍👍🖖.
¹ Samt alls ekki.
² Sem er ekki jafn fráleitt og ætla mætti því það er flotastöð í Chicago, held að hún hafi mest verið notið í þjálfun en kannski mun Trump nota hana til að ráðast inn í Kanada