Búslóðarskipti og smá saga

Í dag var mér gefið nýtt rúm. Það fæ ég sent heim til mín á mánudaginn. Það gamla fékk ég að gjöf frá ömmu minni árið 1997 eða 1998 og var ónýtt. Rúmið sem ég átti þar á undan fékk ég einnig að gjöf frá ömmu minni, árið 1990. Það hvílir niðri í geymslu, nema því hafi verið hent að mér óvitandi.

Á morgun ætla ég að kaupa mér nýtt skrifborð. Það gamla fékk ég að gjöf frá ömmu minni árið 1991 og var úr sér gengið.

Um mánaðamótin ætla ég að kaupa tvo bókaskápa og nýjan skrifborðsstól. Gamla skrifborðsstólinn fékk ég að gjöf árið 1991 frá foreldrum mínum. Hann hékk varla saman þegar ég henti honum.

Það er því útlit fyrir að ég verði ansi heimakær á næstunni, með þennan munað í kompunni minni.

Herbergiskytran sem ég hefi til umráða er tæpir tveir metrar á breiddina og varla nema fjórir á langhliðina. Herbergið er lítið í samanburði við önnur herbergi íbúðarinnar, og líklegast flest herbergi yfirhöfuð, en sá kostur er á því að fataskápur er innbyggður. Kompu þessa hefi ég haft til umráða nærri eins lengi og ég hef átt heima í íbúðinni að Laugarnesvegi; við bræður skiptum nefnilega um herbergi og þannig hélst fyrirkomulagið í að ég held tvö til þrjú ár, eða þar til skömmu áður ég fermdist. Eftir það vorum við báðir ólmir í að skipta aftur.

Í þessu herbergi hefi ég skrásett æfi mína á bókfell aldanna í fjórtán ár mínus þann tíma sem ég bjó í herbergi bróður míns og ég hefi því orðið hændari að því með hverju árinu, svo mjög að ég myndi ekki vilja skipta á því og neinu öðru herbergi íbúðarinnar; ekki einu sinni stóra hjónaherberginu. Að minnsta kosti ekki að svo stöddu.