Hringið í leigubílasímann

Í gær var ég á flugvellinum og tók þá eftir að það var símanúmer á einum símanum sem maður á að nota til að hringja í leigubíla. Ég prufaði að hringja í númerið og þá hringdi síminn. Þetta getur komið sér að góðum notum ef maður ætlar að hringja á flugvöllinn eða bara langar að spjalla við einhvern. Símanúmerið er 511-0976.

Móðir Teresa tekin á beinið

Það var að birtast eftir mig grein á Vantrú um Móður Teresu. Þar reyni ég aðeins að koma með réttari mynd af kellingunni, reyndar ekki eins ítarlega ég hefði viljað enda hefði greinin orðið alltof löng þá.

Annars þá er Siggi Hólm að rífast við Stefán Einar sem er ægilega gaman að fylgjast með, Stefán tekinn á beinið semsagt.

Annars þá hef ég séð þetta fræga bein, þá var það inn á skrifstofunni hans Tryggva skólameistara í MA, man ekki hvort ég prufaði að setjast á það.

Að fara út með ruslið

Nágranni minn fer alltaf út með ruslið, allavega lætur það út fyrir dyrnar, ekki farið með það lengra reyndar. Mér finnst það undarlegt og mér finnst þetta pirrandi. Ef þú ætlar að fara seinna með ruslið í rennuna þá getur þú bara geymt það í forstofunni en ekki láta það fram þar sem nágrannarnir þurfa að horfa upp á það. Pokinn sem er þarna úti er búinn að vera þarna síðan í gær, ég held að það einu sinni hafi verið poki þarna í nokkra daga. Ég get ekki skilið fólk.

Að rippa plötur er gaman

Ef einhver fattar ekki hvað ég er að tala um í titli færslunnar þá er “að rippa” slangur yfir það að búa til stafræn eintök af tónlist, yfirleitt talað um að rippa geisladiska. Ég er semsagt búinn að vera að rippa fjórar plötur síðustu daga. Tek kannski fram áður en að Maggi Kjartans drepur mig að þetta er allt fullkomlega löglegt, maður má gera aukaeintök af tónlist sem maður hefur keypt og síðan er þetta skrifað á geisladiska sem blóðskattur STEFS hefur verið rukkaður af.

Tók Pílu Pínu og Pétur og Úlfinn upp fyrir Árnýju og fjölskyldu (og mig og Eygló þar sem ég á þessa plötu þó hún sé of illa farinn til að gera afrit af henni). Í gær tók ég síðan og rippaði plötu með Mánum sem mér sýnist heita einfaldlega Mánar. Ég tók líka einhverja alla algengustu plötu Góða Hirðisins yfir á stafrænt form. Hjálpum þeim, hjálpi mér, þetta er fyrir Eygló. Það er ótrúlega auðvelt að rippa plötur með tónlist því Audiograbber skynjar það þegar skipt er um lag, það virkar ekki á þessar umræddu barnaplötur því þegar yfirlestur er í gangi túlkar forritið hverja andpásu hjá sögumanni sem lagaskipti.

Pétur og Úlfurinn er alveg tilbúinn, bara að skrifa á disk. Píla Pína er alveg að verða tilbúin, reyndar gæti ég þannig séð hent henni á disk núna en þarf að pússa smá til. Ég fer síðan að rippa eina kassettu og þar að auki hef ég á stefnunni að taka upp tónlistina úr Hárinu af videospólu en þar syngur Hildur aðalhlutverkið.

Annars eru Mánar í gangi núna, ágætisplata alveg.

Helgi Hó í bíó

Ég fór í kvöld í bíó á Mótmælanda Íslands, ég bíð með umfjöllun um myndina þar til að ég get birt hana á Vantrú, hugsanlega á sunnudag eða mánudag. Merkilegt hvað þessi vefur ætlar að vera aktívur og laus við endurtekningar, merkilegra kannski hvað guðfræðingarnir gungna á því að rífast við okkur þar.

En aftur að bíóferð. Ég fékk semsagt boðsmiða á myndina í gegnum Samtök Herstöðvaandstæðinga og reyndar nokkra boðsmiða þannig að við fórum saman sjö. Eygló, Óli, Hildur, Eva, Svenni, Hjördís og Nils (Heiða greyjið komst ekki með). Ég kemst ennþá hjá því að borga mig inn í bíó. Verst að ég fékk ekki að hirða miðann.

Vefsýnarverðlaunin

Ég var hvattur til að taka þessi verðlaun fyrir þannig að ég skal gera það.

Vefsýn var að veita sína verðlaun og ég birti hér með lista yfir sigurvegara þeirra (sem er meira en þeir gera):
Besti íslenski vefurinn: tonlist.is
Besti fyrirtækisvefurinn: vinbud.is
Besti einstaklingsvefurinn: bjorn.is
Besti afþreyingarvefurinn: hugi.is
Besta útlits- og viðmótshönnun: nikitaclothing.com
Ókei, tónlist.is er góð hugmynd í grunninn en þeir treysta á óþægilega microsofttækni, lögin eru í of lágum gæðum, ég hef heyrt um marga sem hafa lent í vandræðum með síðuna og aðgangur er of dýr miðað við þetta allt.

ÁTVR sigrar og ég hef ekkert álit á því, hef líklega aldrei notað þann vef né aðra þá vefi sem voru tilnefndir.

Björn vinnur fyrir besta einstaklingsvefinn. Ég skoða Björn í hverri viku en það er ekki möguleiki að hann sé betra en Fréttir sem var líka tilnefndur. Síða Björns er þannig sé ekkert merkilegri en aðrar bloggsíður stjórnmálamanna fyrir utan það hve lengi hann hefur haldið henni gangandi og fyrir það hve oft hann nær að minnast á Sovétríkin. Ég hefði náttúrulega átt að vinna, ég veit að ég var tilnefndur því ég gerði það sjálfur.

Hugi, besti afþreyingarvefurinn. Ég hélt að málefnin væru búin að taka þetta yfir. Íslendingabók er hins vegar miklu merkilegri vefur, með miklu víðari notendahóp. Algert rugl.

Nikita Clothing vinnur fyrir besta útlitið og það fyrsta sem ég sá þegar fór þangað var að hluti textans á forsíðunni hulinn. Líklega ekki viljandi. Líklega vegna þess að vefurinn var ekki hannaður fyrir Opera. Ég sá annars ekki neitt við þennan vef sem gaf til kynna að hann væri íslenskur. Ég myndi annars aldrei veita verðlaun fyrir útlit, innihaldið skiptir öllu máli, útlitið á bara ekki vera fyrir.

Léttruglað Létt FM

Sigurrós benti mér í gær á klausu hjá Sunnubeib um einhver leiðindakomment frá útvarpskonu um Freddie Mercury. Hún var að tala um að hún skyldi ekki hvers vegna Freddie væri á þeim stalli sem hann er. Svo ég vitni í Sunnu:Það er óumdeilanleg staðreynd að Freddy Mercury var snillingur!
Sáuð þið krakkana sem reyndu að taka Queenlög í Idol? Það er bara ekki samanburður sem söngvarar ættu að fara í. Hann var líka það fjölhæfur að hann gat sungið hvað sem er.

En ég var heima hjá Hildi áðan og þá var lagið ’74-’75 með The Connels í útvarpinu. Þegar laginu líkur byrjar konan að rugla eitthvað um að lagið sé frá sjötíu og eitthvað (það er frá 1993) og sé með hljómsveitinni The Cornels. Það er greinilega ekki spurt hvort fólk hafi vit á tónlist þegar það sækir um vinnu á þessari stöð.

Hvenær drepst páfinn?

Ég er alltaf að bíða eftir að páfinn drepist, vona að það fari að gerast bráðum og í síðasta lagi áður en það verður aftur farið að væla yfir því að hann eigi að fá friðarverðlaunin. Það væri afskaplega sorglegt ef friðarverðlaunin yrðu aftur veitt afturhaldssömum kaþólikka sem hefur á það alls ekki skilið einsog var gert með Móður Teresu.