111247057467378252

Útilega:
Við Alli, vinur minn, kíktum í smá útilegu á Þingvöllum í gær. Þegar við mættum var veðrið fínt og við reyndum að fiska eitthvað. Svo gerði hellidembu, sem varð orsök þess að við fórum á tjaldfyllerí, eins lítið og tjaldið nú var. Til þess að gera langa sögu stutta var allt á floti inni í tjaldi þegar við vöknuðum í dag. Orsökin var víst sú að dyrnar á himninum gátu ekki lokast almennilega svo að vatnið gerði sér greiða leið gegnum innri hurðina og vætti á okkur fæturna meðan við sváfum. Þetta fær maður fyrir að sofa í 2000 króna tjaldi.

111247042915156499

Sunbright:
Úrslitakeppni Sólbjarts (Sólbjartar samkvæmt minni bók) var háð í kvöld og voru það minn (fyrrverandi) bekkur, 4.B, á móti 5.M. Umræðuefnið var áfengi og var minn bekkur með. Eins og allt sem vel fer fór keppnin vel og er það vel. 4.B VANN!!! Þvílík snilld hefur vart sést í nokkurri ræðukeppni áður, eins og mótrök Hilmis gegn því að það væri svo auðvelt að misnota áfengi: „Ég meina, það er skítlétt að misnota börn! Viltu kannski láta banna þau?!“. Svo var það snilldarræða Steindórs sem fólst í því að spiluð var mjög dramatísk tónlist (úr tölvuleiknum Outlaws reyndar) og Steindór var eins og brjálaður klerkur þar sem hann stóð á orginu uppi í pontu, fordæmandi hitt liðið. Svo til að kóróna þetta allt saman flutti Hilmir aðra snilldarræðu og drakk bjór við undirleik Halla á gítar. Ég hef aldrei verið jafn stoltur af því að vera með þessu valinkunna fólki í bekk, þó svo að tæknilega séð sé ég það ekki lengur.

Allahornið
Klaufi aldarinnar: Mér þykir það heiður að tilkynna klaufa aldarinnar 2000-2100: MIG SJÁLFANN!!! 🙂
Ég var í gúddí fíling að hlusta á drum ‘n bass í botni í þráðlausu heyrnatólunum hans littlabróður. Síðan skrepp ég frá tölvunni (með heyrnatólin á mér) til þess að kveikja ljósin hjá gæludýrinu mínu. Þegar ég er kominn langleiðina inn í herbergið mitt rofnar sambandið við heyrnatólin og tónlistin hættir. Síðan þegar ég kem aftur fram kemur sambandið aftur… Þrumandi drum ‘n bass tónlist rífur grafarþögnina sem ríkti annars í íbúðinni minni. Mér brá svo gífurlega við þetta að ég snarstoppa, renn á klunnalegu inniskónnum mínum og skalla herbergishurðina mína af þónokkrum þunga. Auk þessa er ég nýbúinn að jafna mig eftir alla skurðina á höndunum á mér, en þá fékk ég þegar ég var að reyna að skipta um blað í dúkahnífnum mínum… Loksins þegar það tókst, týndi ég hnífnum og hef ekki séð hann síðan. Svo er ég með annars stigs brunasár á upphandleggnum á mér eftir að hafa sofnað upp við ofn aðfararnótt síðastliðins sunnudags (26. maí 2003). Svo, þessa sömu sunnudagsnótt tók ég þátt í bjórþambskeppni í evróvísíónpartíi hjá vini mínum. Stuttu eftir glæstan sigur minn uppgötvaði ég að þvagblaðran á mér var bókstaflega að springa. Ég þaut niður stigann og inn um „klósetthurðina“ á ógnarhraða: „GAAAARRH!!!“ …Ég hafði fundið bílskúrinn hans vinar míns. Þröskuldurinn er hálfum meter yfir bílskúrsgólfinu og ég áttaði mig á því að ég var í lausu lofti. Það entist ekki lengi, því að mér tókst snilldarlega að stoppa mig með því að skalla hillu sem var þarna í skotfæri. Ég rölti stynjandi út úr bílskúrnum og í sömu andrá trítlar Aggi félagi grunlaus fram af talsvert betur heppnaðri klósettferð. Hann heyrir eitthvað óhljóð beint fyrir aftan sig og ég hélt hann yrði ekki sekúndunni eldri.
Þessi syrpa af klaufaskap verður seint toppuð, og ég hef það reyndar óþægilega á tilfinningunni að hún sé langt í frá á enda. :/ -ALLI.

Auk þessa er hér gullmoli:
Inni á American Style,
Afgreiðslukona:„Má ekki bjóða þér hnífapör?“
Alli:„Nei. Þetta er hamborgari.“
Allahorni lokið

111247023761746503

Loksins loksins!
Úrslitakeppni Sólbjarts í kvöld. 4.B á móti 5.eitthvað. Að sjálfsögðu mætir maður og styður sína menn til dáða og ég efast ekki um það að þeir muni bera sigur af hólmi. Svo er annað í fréttum en er það fréttnæmt mjög. Hann Siggi vinur minn er farinn að blogga á ný, en hann hefur ekki bloggað í meira en mánuð (held ég). Svo er veiðitúr á morgun og verður bjór þar í hávegum hafður. Sweet =)

Það verður ekkert Radioead quote á næstunni þar sem búið er að loka fyrir alla tengla að quotum.

111247018648182780

Kallinn fallinn en ekki af baki dottinn:
Enn einn veturinn í Menntaskólanum í Reykjavík liðinn, og eins og svo oft áður hefur fólk sem ekkert lærði fallið. Ég er einn af þessu fólki. Það er reyndar ekki eins og ég hafi ekki vitað það áður en það gildir einu. Í dag var ég í annað skipti á ævinni næstum því genginn í MS. Eins og í fyrra skiptið ákvað ég að láta þær pælingar sem vind um eyrun fjúka. Ég hef ákveðið að gerast tvöfaldur fallisti og taka fjórða bekkinn aftur. Hef ég þar með frestað inngöngu minni í MS um a.m.k. 365 daga, hugsanlega um alla eilífð. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki þess virði að næla sér í hvítu húfuna ef maður þarf ekki að berjast fyrir henni. Ég ætla að berjast, og ég ætla að útskrifast úr MR, sama hvað á dynur. Stúdentspróf þaðan er mér mikils virði, en einskis virði séu þau fengin annarsstaðar. Undirritaður hafði rangt fyrir sér með dönskuna. Ég þarf að taka hana aftur en ég er ekki af baki dottinn. Mr-ingur til æviloka.

Radiohead quote dagsins:
„I’m not living, I’m just killing time.“ -True Love Waits

111247008377640646

Kominn tími til að brýna tungu mína á spjótsoddum sannleikans:
Ég er í einhverri af þeim ógeðfelldari vinnum sem möguleiki er fyrir hendi að vinna. Ekki vegna þess sem í vinnunni felst heldur vegna starfsfólksins og ég má þakka Bibba fyrir að geðheilsa mín er ekki frekar röskuð. Hér fylgir lýsing á þeim helstu afsprengjum misheppnaðrar æxlunar er vinna með mér. Alræmt er orðið „Þríeyki Hinnar eilífu fáfræði“, þeir Luri, Baldur og Baritóndvergurinn. Luri lætur vitsmunaskort sinn ekki aftra sér og lætur óspart úr munni sínum fáránleik og firru. Þessi akfeita afsökun fyrir spendýr hlýtur að vera heimsmethafi í lélegum bröndurum. Baldur berst hetjulega fyrir því að tilveruréttur sinn sé viðurkenndur, en því miður fyrir hann er vitleysa sjaldnast viðurkennd. Síðast en ekki síst er hinn aldræmdi höfuðpaur: Baritóndvergurinn. Dvergurinn er eitt það fáránlegasta afstyrmi sem úr legi hefur oltið og ber útlit ellefu ára kórdrengs ásamt því að sporta hinni brothættustu baritónrödd er nokkru sinni hefir heyrst. Dvergur heldur því fram að hann sé framhaldsskólanemi. Enginn trúir því.
Svo koma „The Lesser Spawn of Evil“. Þar fer fremstur í fylkingu fyrrverandi hobbitinn Viktor, sem kyrjar „My Precious“ fyrir framan altari af traktor hvert einasta miðnætti. Viktor þjáist einnig af langdegisþunglyndi á sumrin en leggst í hýði á veturna. ÞETTA þarf ég að vinna við!!!

Annars þá átti ég yndislegan vinnudag í dag. Ég fékk að slá gras, slá gras, slá gras og gras og gras og gras og meira gras…

Radiohead quote dagsins:
„You will never make friends unless you like everyone genuinely. Oh well, I’m fucked then aren’t I?“ -Thom Yorke, söngvari og gítarleikari.

Kaffihús

Ég var bara að koma inn úr dyrunum eftir að hafa farið með Sigga og Silju á kaffihús. Skyndilega rann upp fyrir mér að það hefur varla liður dagur undanfarnar vikur sem ég hef ekki eytt verulegum hluta af á kaffihúsi. Það er kannski ekki skrýtið í ljósi þess að Siggi er mjög duglegur við að bjóða mér með sér. En þó er það kannski skrýtið í ljósi þess að ég hef ekki átt neina peninga í langan tíma. Svo vil ég nota tækifærið til að ráða ykkur heilt. EKKI fara út á svalir á Glaumbar. Það gæti komið gaur og læst ykkur úti. Eina leiðin þaðan er að hoppa.

111246996153310623

Eurovisionkvöld:
Ég er alveg gífurlega þunnur. Ég fór með Alla vini mínum í Eurovisionpartí í gærkvöldi og þar draup smjör (áfengi í þessu tilviki) af hverju strái. Tvær gerðir af bollu voru fáanlegur, svo og bjórkútur. Þar gerðist ýmislegt. Gestgjafinn skaut óopnaða bjórdós með gasbyssu og sprengdi hana (Alli drakk svo úr gatinu) og fór þvínæst í humátt á eftir einum gestinum og gerði ítrekaðar tilraunir til að skjóta hann vegna þess að: (1) Gestgjafinn hafði verið að drekka bjór í gegnum trekt og gesturinn hellti bollu í trektina. (2) Gesturinn hafði migið í heita pottinn. Alli fór inn um vitlausar dyr þegar hann ætlaði á klósettið, datt niður 1/2 meters þröskuld og skallaði hillu. Síðar um kvöldið kom móðir gestgjafans og partíaði með okkur.
Eftir að partíinu hafði slotað fórum við Alli niður í bæ. Við skruppum fyrst á Dillon og ég lenti þar í hörkusamræðum við einhvern vinstri-við-miðjumann sem vildi gera hitt og þetta til að bæta samfélagið. Þegar Dillon átti að fara að loka fórum við á Glaumbar. Það var alveg ágætur staður, fyrir utan það að þegar ég skrapp út á svalir til að fá mér ferskt loft kom einhver kóni og læsti mig úti. Ég brölti því niður og fór heim. Þetta kvöld drakk ég svona milljón glös af bollu, einhverja bjóra (man ekki hve marga), fjögur glös af Hot n’ Sweet (ojbara) og eitt staup af einhverju sem hefði getað verið ferskjusjampó. Ágætis kvöld þetta.

Pæling:
Hvað í skrattanum fær ketti til að brölta 30 hringi um svefnstað sinn áður en þeir fara að sofa?

Radiohead quote dagsins:
„The Bends was many things, but it wasn’t really chirpy, was it? It was more like a darkness lumbering over the horizon with gun turrets strafing the Britpop hordes with misery… er, sorry. Got a bit carried away there.“ -Colin Greenwood, bassaleikari