Nýtæki:

Nýtæki er nýtt orð sem ég hef fundið upp yfir það að finna upp ný orðatiltæki, en það er einmitt nýr liður á þessu bloggi. Hér munu birtast mörg nýtæki og hvet ég alla til að brúka þau. Ég veit að ég mun gera það óspart.
(1) „Að renna frá mergi til matar“, bein skírskotun í það hvað fólk leggur sér mikinn óþverra til munns (í þessu tilviki beinmerg), og einnig hvað það á til að láta út úr sér á móti, t.d. ofnotuð orðatiltæki. Það sem „rennur frá mergi til matar“ er eitthvað sem er hvimleitt og langþreytt.
Dæmi:
Kall: „Hakuna Matata!“
Kona: „ Þetta rann aldeilis frá mergi til matar.“
(2) „Að skalla þá gæsina“, er notað þegar einhverjum fipast við eitthvað.
Dæmi:
Einhver gaur klúðrar atvinnutækifæri. Þá er gott tilefni til að segja að „hann hafi ekki skallað þá gæsina“.
(3) „Að vera ekki af rósum rifinn“, á við um fólk sem hefur aldrei upplifað sorg í ástum.
Dæmi:
Kona: „Honum Palla líður víst mjög vel með henni Jónu.“
Kall: „Já, hann Palli er ekki af rósum rifinn.“
(4) „Að vera sem af snældu stunginn“, á við um fólk sem sefur of mikið.
Dæmi:
Finnbogi hefur sofið í þrjátíu klukkutíma. Kalli segir: „Hann er sem af snældu stunginn!“
(5) „Að taka Ódysseifinn á eitthvað“, á við um karlmenn sem drepa alla þá er gefa konu sinni hýrt auga.
Dæmi:
Fréttaþulur: „…og voru þeir drepnir á alveg einstaklega brútal hátt. Í fyrstu var talið að misyndismaðurinn hefði tekið Ódysseifinn á þetta, en annað kom á daginn…“

Enn og aftur hvet ég alla málelskandi menn til að tileinka sér þessi nýtæki mín. Ef þau afla nógu mikilla vinsælda gæti vel verið að þau birtist einn daginn í einhvers konar máltækjabók, og það er eitthvað sem allir gætu hagnast af.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *