Vinnudagur Satans:

Í dag hefur rignt eins og hellt væri úr drykkjarhorni Útgarða-Loka og að sjálfsögðu hef ég verið úti að vinna í allan dag. Það stytti fyrst upp þegar vinnunni var að ljúka. Að sjálfsögðu var ég settur á orf (að vísu ekki eins fínt og þetta). Eftir að hafa unnið eins og brjálæðingur, meðan samstarfsmenn dagsins (einnig á orfi) gerðu ekki neitt, voru þeir báðir verðlaunaðir með þægilegri vinnum. Ekki ég. Ég þurfti að orfa allan daginn, frá átta til fimm! Að vísu voru þar í milli matarhlé en þau voru ekki upp á marga fiska (ég legg til að við leggjum niður „fiska“ og setjum „seðla“ í staðinn). Þar þurfti ég að hlusta á Lurann, er áður hefur verið nefndur, fræða fólk um það hvernig „hjúds torrneidóar“ og „sjúklega hjúds högl“ ættu sér sama uppruna. Engin rök voru færð fyrir málinu og augljóst var að hann vissi ekkert um hvað hann var að tala. Eitt gerðist þó kostulegt í dag en var það þegar hinn einnig áðurnefndi Baritóndvergur hlaut heimsókn frá móður sinni, en hún setti hann aftan á skottið í bílnum sínum og klæddi hann í stígvél og regngalla. Er ég nú sannfærður um að hinn meinti MH-ingur sé í raun leikskólakrakki í barnaþrælkun.

Hvað er það sem ég ætla mér svo að gera núna þegar vinnan er búin? Ekki neitt. Ég er allt of þreyttur. Svona verður líf mitt líklegast alveg fram að helgi, en þá mun ég líklegast setjast að drykkju eins og sönnum verkamanni sæmir. Ef það gengur ekki upp sem skyldi þá er það alltaf bókin góða (ekki biblían!). Ætli ég lesi ekki bara einhverja Discworld bók eða eitthvað. Mér dettur ekkert annað sniðugt í hug til að lesa. Að lokum vil ég benda þeim sem hafa ekki enn komist að því á það að dr. Ármann er farinn að blogga á ný. Heimurinn hefur svo sannarlega skánað…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *