111532799163213011

Ég fór í eitthvað nostalgíueipkast í dag og fór upp í gamla gagnfræðaskólann minn. Ég veit ekki af hverju. Þar hitti ég minn fyrrverandi dönskukennara sem var alveg ógurlega ánægð að hitta mig. Skyndilega rann það upp fyrir mér að ég var alveg einstaklega duglegur við að sleikja upp kennara á æskuárum mínum. Kannski kominn tími á að liðka málbein sleikjunnar á ný? Mér virðist ekki veita af því miðað við kennaraeinkunnir…

Hins vegar skrapp ég á bíó-grillið á Laugarásvegi áðan og fékk mér einn djúsí hamborgara. Þar sem ég sat og naut eins þess versta hamborgara er ég hef fengið (ennþá að jafna mig eftir að fimmtán ára afgreiðslustúlka gaf mér hýrt auga) rakst ég á „gullkorn“ í „myndböndum mánaðarins“. Af lestri þess mola mætti draga þá ályktun að ævisaga Hilary Swank muni heiti „Líf mitt sem skór“, enda segir hún skóúrval sitt lýsa lífi síni í hnotskurn. Það er ekki í lagi með sumt fólk.

Í þessu einstaka blaði má einnig finna einhverja þá mellulegustu mynd er af Kelly Osbourne hefir birst, og þó hafa þær margar hverjar verið ívið mellulegar.

Af fréttum dagsins ber þó hæst að kennslustjóri MS er augljóslega að biðja um það að hún verði fyrir aðkasti af minni hálfu. Hún þrjóskast við að hleypa mér inn á þriðja ár. Það er útlit fyrir að einhver fái dónalega upphringingu í nótt. Múhahahahahaaa!!!

PS. Hafið þið einhvern tíma spáð í orðinu „ókind“? Íslendingar virðast alltaf hafa verið jafn djúpt sokknir í þessar kindur sínar að orðið „ó-kind“ (þ.e. eitthvað sem ekki er kind) virðist hafa neikvæða merkingu í Íslensku máli. Veit maður ei hvort gráti skuli það eða hlæja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *