Fréttablaðið í dag

Titill forsíðugreinar Fréttablaðsins er svohljóðandi: „Leiðtogar fagna falli böðlanna“. Það geri ég líka en er þetta ekki full gróft hjá blaði sem skilgreinir sig hlutlaust? Svo er lítill greinarstubbur á bls.4 sem segir að fátt sé eftir af eftirlýstum írökum. Væntanlega þar sem Uday, Quisay og Saddam voru einu virkilega eftirsóttu írakarnir á meðan hinir voru allir peð. Önnur grein heitir: „Nautin á Sogni í Kjós: Kleinur og flatkökur“. Ég ákvað að lesa hana ekki. Svo segir blaðið að staðfest sé að samningum við Shell hafi verið breytt á meðan Morgunblaðið segir að engar sannanir liggi fyrir og að allir málsaðilar þverneiti öllum sakargiftum. Eru blöðin ekki að tala við sama fólkið? Eyjamenn vilja fá jarðgöng og hjón urðu fyrir eldingu. Ekkert skal sagt um gangnaplan þeirra í Vestmannaeyjum en hitt skal þó sagt að fólk sem leitar skjóls undir trjám í þrumuveðri á skilið að deyja. Jón Þór Ólason (samkvæmt blaðinu en ég held að það eigi að vera Ólafsson) sendi bréf til ríkislögreglustjóra sem varðaði hvað ætti að hafa í huga við gæslu á útihátíðum. Ég hefði nú haldið að ef einhver vissi það myndi það vera lögreglan. Svo er það annað mál að dauðsföll þjónustukvenna í Singapúr virðast hafa náð nýjum klímax. Talið er að það sé vegna lélegrar þjálfunar. Hvað meina þeir? Vaska þær vitlaust upp og reita þar með húsbændur sína til reiði með fyrrnefndum afleiðingum? Yfirmaður öryggismála Ólympíuleikanna 2002 var rændur af vasaþjófum og Ögmundur Jónasson dregur að sér fjallaloftið. Tony Blair er yngsti forsætisráðherra Bretlands Í 170 ár (hefði ekki átt að tilkynna það þegar hann tók við völdum?), París og London eru borgirnar hans Birgis Ármanssonar, sagt er frá myrkfælni Einars Ben, Haley Joel Osment vinsælasta barnastjarnan, Angelina Jolie hefur ekki átt mök í heilt ár (jæja já?) og Páll Steingrímsson er nýkominn úr kassanum. Ég ætla ekki einu sinni að minnast hér á bakþanka dagsins.

Eitt af því sem ég hef lært af fréttablaðinu er það að taka öllu því sem þar stendur með fyrirvara. Annað sem ég hef lært er það að ef ég er í fýlu get ég alltaf reitt mig á það að fréttablaðið komi mér í góða skapið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *