Í útvarpinu

Í dag sem svo oft áður hlustaði ég á útvarpið í bílnum. Tvennt stóð þar upp úr. Annars vegar var sagt frá sálfræðitilraun þar sem úrtakinu var skipað í tveggja manna hópa. Þeim fyrri var boðin tiltekin peningaupphæð og gert að ráðstafa þeirri upphæð milli sín og hins mannsins í hópnum. Mátti hann skipta peningunum eins og hann vildi. Hinn aðilinn mátti taka boðinu eða hafna því. Ef sá síðari hafnaði boðinu urðu báðir af peningunum, en ef hann samþykkti fengu þeir peningana greidda eins og fyrri aðilinn hafði ráðstafað þeim. Það væri því rökrétt að samþykkja alltaf upphæðina, því skárra er að fá einhvern pening en engan. Niðurstöðurnar urðu þær að flestir voru sanngjarnir og skiptu til helminga, en flestir þeir sem fannst skipting fjárins ósanngjörn höfnuðu peningunum. Magnað.

Hins vegar var rætt um fjölmiðlafrumvarpið. Davíð sagði að sér þætti það sæta tíðindum ef stjórnarandstaðan tæki afstöðu með Baugi í því máli. Gerir hann sér ekki grein fyrir því að andstaða við frumvarpið þarf ekkert að tengjast Baugi á nokkurn hátt? Hvað um þá staðreynd að til að geta rekið fjölmiðil þarf maður að vera nokkuð fjáður, og svo þá staðreynd að flestir fjáðir íslendingar eiga í einhvers konar rekstri? Það segir sig sjálft að algjör ríkiseinokun verður á fjölmiðlum ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Enginn óháður aðili hefur bolmagn til að reka miðil.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *