Eurovision

Einu sinni á ári blogga allir um það sama, hina margumræddu Eurovision/Evróvisjón krísu. Þá sjá ekki allir að það skiptir engu máli hvað maður kallar þessa keppni, það breytir henni ekki í eðli sínu. Um flesta hluti gildir að titillinn skiptir sjaldnast máli. Sumir beita þýskum framburði (ojróvisjon). Það finnst mér sniðugt, en sjálfur segi ég jafnan júró. Ekkert af þessu skiptir máli. Keppnin gæti heitið Magnús Leopoldsson og verið sama snilldin fyrir því. Nei, ég dreg í land með þetta. Áreiðanlega væri keppnin enn meiri snilld ef hún héti Magnús Leopoldsson.

Eurovision er það besta sem gerist á hálfþjóðlegum vettvangi. Ímyndið ykkur hvað heimurinn væri góður og fallegur ef lífið væri eitt stórt Eurovision, allt fullt af syngjandi kjánum í bjánabúningum. Það er viss fegurð í því. Fegurðin er Finnar í Klingonabúningum. Og þá kemur það sem heillar mig mest við Eurovision, það er að tónlistin skiptir engu máli, altént tel ég mér trú um það. Tónlistin er löngu stöðnuð í ’89-’95 fílingnum. Það hlustar enginn á svona tónlist, enda vinnur jafnan skemmtilegasta atriðið fremur en lagið. Nema Austurríkismaðurinn og mamma hans. Þau unnu ekki þrátt fyrir að vera langsamlega skemmtilegust. En Rúslana vann. Hún var líka langflottust. Hápunktur þeirrar keppni var samt röflið í Gísla Marteini. Gott ef hann endurtók ekki leikinn í fyrra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *