108525299162023778

Djöfullinn gengur um myrka sali Ikea í Holtagörðum. Með honum í för er jafnan maðurinn með ljáinn, vígamóður og vitfirrtur, og stendur slétt á sama um þau líf er hann ófrjálsri hendi tekur af viðskiptavinum Ikea. Skrattinn hlær holum hlátri meðan hann sorterar út þá sem honum tilheyra, að loknu starfi Dauðans. Þeir kumpánar taka sér kaffipásur eins og aðrir. Sitja þeir þá jafnan uppi á teríu með kaffibolla við hönd, sötra og tala um þjóðfélagsmálin. Vandamál þykir, að er dauðinn drekkur, þarf í sífellu að moppa upp eftir hann kaffið, því holdi rændur búkur hans hefur ekki vald yfir vökvanum. Er flauturnar á veggnum syngja standa þeir upp og halda til vinnu. Þegar öldur kaupfúsra kúnna taka að lægjast, taka þeir sér örlítinn tíma til að fara yfir stöðu mála, í skýrslubókum þeim er hinar fögru hillur Ikeakontórs prýða. Situr Skrattinn þá jafnan fyrir aftan borð en Dauðinn fyrir framan. Þá hvín í Kölska, hvellur hlátur, er hann sér hve tölurnar fara hækkandi dag frá degi.

Bráðum liggur heimur allur fyrir fótum þeim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *