Ítalíuför

Hér fylgir plebbaleg ferðasaga, eingöngu til þess gerð að sýna ljósmyndir, fremur en að varpa einhverju ljósi á hvernig ferðin var:

Síðdegis s.l. fimmtudag lögðum við bróðir minn af stað upp á Keflavíkurflugvöll, þar sem við dvöldum fulllengi fyrir okkar smekk. Orsakaðist það af seinkun ferðarinnar.

Trieste
Fyrst lentum við á þessum flugvelli í Trieste, okkur til talsverðrar óánægju, því okkur hafði verið lofað beinu flugi til Verona, en við komumst loks upp á hótel um eittleytið eftir miðnætti, að ítölskum tíma.

Verona
Daginn eftir var haldið í skoðunarferð um bæinn og vorum við ekki lengi að læra að rata um miðborgina. Komumst við einnig að því að í Verona er fjöldi rómverskra rústa mikið vandamál, því ekki er hægt að grafa neitt niður án þess að lenda á rústum, og því er oftast byggt yfir þær. Í ferð þessari tók ég mynd af bæjarbókasafninu, enda sérlegur áhugamaður um öll verdens bibliothec. Einnig skoðuðum við meintar svalir Guiliettu di Capuletta og gerði bróðir minn sér lítið fyrir og káfaði á hægra brjósti hennar, sér til heilla (illrar heilli?). Einnig skoðuðum við Castelvecchio, þann sérdeilis prýðilega kastala, og sjálft Arena di Verona – sem þó var afmyndað af stillösum.

Við Piazza della Erbe í Verona hangir hvaltönn undir bogagöngum. Veit enginn hvaðan hún kemur.

Í Verona eru mjög flott hús og vorum við bróðir minn þokkalega þéttir á kantinum, eins og sjá má hér og hér. Einnig munu glöggir lesendur taka eftir því að ég keypti mér hatt. Svo plebbalegt að það varð hálfpartinn kúl.

Var mjög gaman á öldurhúsum Verona, þó skemmtanalífið hafi verið í daufari kantinum.

Lago di Garda
Í ferð þessari heimsóttum við Gardavatn og var það náttúruperla af guðs náð. Ókum við til bæjar að nafni Malcesine og tókum ferju þaðan til Limone, þar sem rútan sótti okkur og keyrði til Sirmione. Var sú ferð sérdeilis prýðileg.

Venezia
Næsta dag héldum við til Feneyja, þess súra staðar. Ágætt fyrir dagsferð en ég var hálf feginn þegar við yfirgáfum borgina. Þar sáum við þó Andvarpsbrúna, Rialtobrúna, Marco Polo og styttu nokkra, auk dómkirkjunnar sem þó náðist engin almennileg mynd af.

Gaman var að fóðra dúfurnar á San Marco og er það áreiðanlega hið eftirminnilegasta við ferð okkar þangað.

Heimkoman
Á leiðinni á flugvöllinn sáum við þetta skilti og þótti okkur fyndið. Þar með lýkur þessari plebbalegu ferðasögu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *