109389212048078492

Það hendir mig oft að fólk hringir í mig þegar ég les (ég les mikið). Þegar ég er spurður hvað ég sé að gera, segist ég „bara vera að lesa,“ og sá sem hringir svarar: „Já, ókei“ og heldur áfram að tala! Það er semsagt ekkert merkilegt að ég sé að lesa og það er þá allt í lagi að trufla mig, bara vegna þess að ég er að lesa. Þegar ég segist vera að lesa, ætlast ég til að fólk taki því eins og ég sé í bíó. Ekki veit ég hvort því er eins farið með aðra, en þegar ég hringi óafvitandi í bíógesti afsaka ég mig sem mest ég má – á eins skömmum tíma og auðið er – áður en ég legg á. Sjálfur fer ég sjaldan ef einhvern tíma í bíó en stunda bækurnar af meiri krafti. Þegar ég les, þá les ég. Bókin nýtur óskiptrar athygli minnar meðan ég les, sama hvaða gylliboð ég fæ (nema fríkeypis máltíð á Ítalíu eða boðsmiði með fyrsta flugi til lands af sama nafni). Mér finnst fólk mega taka tillit til þessa. Ég veit þó reyndar að það er borin von. Það þykir víst annars flokks afþreying að lesa nútildags.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *