Sálgreining Bloggsins – inngangur

Skilgreiningarþörfin
Undanfarið hef ég í auknum mæli tekið eftir endurupptöku umræðunnar um hvað blogg sé. Bloggarar eru sérdeilis exístensíalískir, að því er virðist, og um mitt árið 2002 virtist lítið bloggað um annað en hvernig skilgreina mætti blogg og, nánar tiltekið, bloggara. Hvers vegna? Vegna þess að á þeim tíma flokkaðist blogg undir frávikshegðun og bloggarar voru frávik og litnir hornauga, t.d. sagði Mikael Torfason á sínum tíma að bloggið væri úrkynjun bókmenntanna (eins og bækurnar hans væru það ekki!). Þegar fólk er hallt á einhverja tiltekna skoðun eða gerir eitthvað sem það eða aðrir telja að samræmist ekki normatívri hegðun reynir það að réttlæta það – bæði fyrir sjálfum sér en þó sérstaklega fyrir öðrum.
Hafandi verið bloggari í eitt og hálft ár (samkvæmt eigin skilgreiningu er ég á gelgjuskeiði bloggsins) veit ég hvernig það er að þurfa að réttlæta bloggið. Ég byrjaði að blogga fyrir sjálfan mig (og geri enn) af þeirri ástæðu einni að mér þótti það spennandi og að það byði upp á nýja fjölmiðlunarmöguleika; að í fyrsta sinn gætu fjölmiðlar virkilega verið fjölmiðlar. Flestir vina minna voru á öðru máli og það var bróðir minn einnig. Réttlætingin gekk svo langt að ég þorði ekki einu sinni að segja honum frá því að ég bloggaði vegna þess að ég taldi að hann myndi aldrei geta skilið snilldina bakvið bloggið. Á endanum gerði hann það þó.
Eftir sem áður er ástæða skilgreiningarmaníunnar komin: Bloggarar þurfa að geta útskýrt og skilið bloggið og eigin bloggþörf til að geta annars vegar réttlætt það fyrir villutrúarmönnum og hins vegar til að geta mælt með því. Ástæða þess að umræðan hefur nú vaknað úr tveggja ára dvala mun vera sú að fjórða kynslóð íslenskra bloggara hefur lent í því sama og Beta rokk, hver gekk svo langt í eigin réttlætingu að henni fannst hún þurfa að gefa út bók.
Blogg virðast nefnilega ganga í gegnum sömu þroskaferli: Æsku, gelgjuskeið, fullorðinsár, elli og dauða. Auðvelt er að auðkenna á hvaða stigi ferlisins blogg eru.
Æskan einkennist af galgopahætti og glensi; jafnvel brosköllum ( 🙂 ), greinarmerkjakraðaki (dæmi: sjitt mar!!!!!!!!!), lágreistum röksemdafærslum og sögum af pínlega hversdagslegum athöfnum, s.s. sturtuferðum og matarinnkaupum. Enginn stíll hefur mótast. Oftast á þetta ekki við þegar fullorðið fólk á í hlut.
Á gelgjuskeiðinu hafa stíll og fastir liðir tekið að mótast hjá bloggaranum (lag dagsins og þar fram eftir götunum). Umfangsmeiri og betur rökstuddar athugasemdir koma fram sem og þróaðri vangaveltur um gang mála (hinar s.k. exístensíalísku heimspekilegu pælingar – af hverju er lífið svona o.s.frv.).
Fullorðinsár bloggsins einkennast af reglulegum færslum sem auðkennast af fullmótuðum ritstíl bloggara og keimlíkum færslum. Þá er hægt að skilgreina bloggara sem bloggara af ákveðnu kalíberi eða sem bloggara einhverrar ákveðinnar tegundar, t.d. ef bloggari er gjarn á að blogga um bókmenntir.
Elli bloggsins auðkennist af mjög óreglulegri bloggtíðni og þreytu. Augljóst er að bloggarinn nennir þessu ekki og leggur engan metnað í skrif sín lengur. Oftast lognast slík blogg út af í kyrrþei, þegar lesendafjöldinn er nánast horfinn.
Dauði bloggsins er þó ekki alltaf með þeim hætti, enda hætta bloggarar nær oftast á hátindi ferils síns, fullorðinsskeiðinu. Ástæður þess eru eins mismunandi og bloggarar eru margir.
En hvað sem tilvistarkreppu bloggara líður verður seint hægt að skrifa konkret grein um bloggið, enda virðast þær hver annarri hallærislegri og lélegri. Blogg er blablabla. Bloggið er að mínu mati annars vegar arfgeng tilhneyging fólks til að skrifa um málefni líðandi stundar og hins vegar framlenging á félagslífinu. Einnig mætti athuga sjálfhverfnisstuðul bloggsins, að þar fái fólk útrás fyrir þá prímadonnuþrá sína að ókunnugir geti lesið um það á netinu. Líta mætti þannig á bloggið sem skort á einhverju fremur en að það sé eitthvað, t.d. skort á ævisögu.
Þetta hefur verið mitt innlegg í þessa umræðu. Kannski geri ég þetta að föstum lið og sálgreini einstaka blogg, en ég stórefa að ég nenni því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *