Óskalisti

Séu menn í nokkrum vafa um hvað mig langar í jólagjöf langar mig einna helst í tvennt:

1. Órangútan. Skal hann heita Hannibal Loðvík, I. stórmoffi af Laugarnestanga og skal hann vera af ætt silfurapa (simius argentus). Hann mun vera virtur af mörgum en hataður af sumum, strangur en réttlátur höfðingi, vinur erlendra konunga, barúna og hertoga, velgjörðarapi allra hlunnfarinna og bágborinna stétta; fróður en þverfaglegur í hugsjónum sínum; mikilfenglegur en alþýðlegur; dagfarsprúður og hvers manns hugljúfi. Hann skal vera manna færastur í öllu því, er hann tekur sér fyrir hendur; sinn eigin makker, ráðgjafi og trúnaðarmaður. Skal hann verða vor fyrsti ómennski ráðherra, forseti Alþingis og þjóðar allrar. Mun hann lúta í lægra haldi fyrir engum nema dróttni sínum, herra og skapara.

2. Bókina Evangelísk-kristileg Messu-söngs- og Sálma-bók, að konunglegri tilhlutun samantekin til almennilegrar brúkunar í kirkjum og heima-húsum og útgefin af því konunglega íslenska Lands-uppfræðingar félagi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *