Jólin 2004

Já, ekki fer ég í jólaköttinn í þetta sinn. A.m.k. hefur hann ekki látið á sér kræla. Þetta fékk ég í jólagjöf, að undanskilinni einni gjöf sem ég ætla ekki að tjá mig um hér:

* Eddukvæðin, öll í einni bók,
* Konungasögur – þrjár bækur,
* Svört jakkaföt, skyrta og bindi,
* Glænýir og glæsilegir skór,
* Tenderfoot – hljómplata,
* Englar og djöflar eftir Dan Brown,
* Svartur stuttermabolur,
* Ríddu mér eftir Hugleik Dagsson.

Þá er að sjá hvort aðrir bloggarar fylgi fordæmi mínu og birti sína jólagjafalista. Annars hafa þessi jól aðallega farið í að borða og horfa á sjónvarp. Um daginn horfði ég á Amélie og Crouching Tiger, Hidden Dragon, en horfa má endalaust á þær báðar án þess að fá leið á þeim. Ég horfði þó ekki á endann á þeirri síðarnefndu. Það er nóg að þurfa að horfa upp á ömurlegt hlutskipti Li Mu Bai einu sinni.
Í gær horfði ég á Moulin Rouge. Hún er einnig sígild og óþarfi að hafa um hana fleiri orð. Áðan horfðum við bræður svo á Neverending Story. Það er mynd sem ánægjulegt var að rifja upp kynnin við. Æðisleg mynd, þó ekki nema væri fyrir titillag hennar, sem er algjör snilld. Svona myndir eru ekki gerðar lengur, skömm sé frá að segja. Raunar er svo mikill skortur á almennilegu barnaefni að menn eru farnir að endurframleiða klassabarnaefni frá níunda áratugnum eins og He-Man, Transformers og Turtles. Er ekki alveg ljóst að við sem ólumst upp á þeim tíma hafi upplifað allt það besta sem iðnaðurinn hefur gefið af sér? Ég held það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *