Hamfarir

Það er kannski kominn tími á að blogga um þær gríðarlegu hamfarir er átt hafa sér stað í Indónesíu og víðar. Yfir 55000 manns eru látnir samkvæmt nýjustu fréttum. Jarðskjálftinn, mældist 8,9 á Richter, er sá öflugasti í yfir 40 ár. Nú reynist bjánalega Stalínkvótið vera eins fjarri sannleikanum og mögulegt er. Þetta er harmleikur, ekki tölfræði.

Lítið er hægt að segja um sjálfan harmleikinn sem nær að lýsa honum nægilega vel. Sérstaklega reynist það okkur erfitt sem sitjum heima í þægindum og allsnægtum. Það verður samt að segja eitthvað.

Óneitanlega verður manni hugsað til mestu náttúruhamfara sem vitað er um – þegar eldfjallaeyjan Krakatá sprakk í loft upp einhvern tíma milli Kristsburðar og landnáms Íslands. Gjóskufallið varð svo mikið að himininn myrkvaðist í þrjú ár og til eru skráðar heimildir um það frá öllum heimsálfum. Enginn vissi hvað hafði gerst. Norrænir menn trúðu því að Fenrisúlfur hefði gleypt sólina. Mikil flóðbylgja skall á Indlandi og lagði mikinn hluta austurstrandarinnar í rúst. Hækkandi sjávar varð vart á fleiri stöðum. Þúsundir létust í eftirmála sprengingarinnar, aðallega vegna búspella, þar eð dýrin féllu í hrönnum vegna eitraðs andrúmsloftsins. Hvernig vitum við um upptökin? Öskulög hafa fundist í árhringjum kanadískra trjáa og í Grænlandsjökli sem samsvara þeim við Indónesíu að öllu leyti, þ.m.t. kolefnisgreiningu.

Í þeim hamförum fórust margfalt fleiri en nú. Það varpar samt ekki rýrð á hve hræðilegt þetta er alltsaman. Lengi hefur verið vitað að Indónesía er á eina mesta hættusvæði í heimi. Krakatá hefur sprungið oftar en einu sinni. Til er „dóttureyja“ hennar: Litla Krakatá. Hún gæti sprungið hvenær sem er og valdið móðuharðindum á heimsmælikvarða. Það er til fólk sem ýmissa ástæða vegna verður að búa þarna. 55000 þeirra eru látnir, þar af rúmlega 27000 í Indónesíu og 8500 á Indlandi. Það er vert umhugsunarefni fyrir okkur sem höfum það svo gott.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *