Hávamál og kennari minn

Að hyggjandi sinni
skyli-t maðr hræsinn vera,
heldr gætinn að geði.
Þá er horskr og þögull
kemr heimisgarða til,
sjaldan verðr víti vörum.
Því að óbrigðra vin
fær maðr aldregi
en mannvit mikið.

Þetta eru mikil sannindi. Að því sögðu sprakk ónefndur kennari minn ekki úr mannviti í gær er hún hygldi vissum fræðigreinum á kostnað annarra enn einu sinni. Menntahroki á ekki að líðast, þá sérstaklega ekki hjá kennurum. Auðvitað á kennari að hafa áhuga á þeim greinum sem hann kennir umfram aðrar, en ekki slíkan að hann fari með blaktandi gunnfána gegn öðrum fögum og forsmá þau á fölskum forsendum. Að málinu vel athuguðu kom í ljós að flest það er téður kennari hafði látið úr munni sér í þeim tíma var þrugl. Meira að segja atriði sem kennarinn átti að hafa á hreinu í sínu eigin fagi reyndust ekki standast samanburð við staðreyndir. Ég get gefið mér að menntaskólakennarar einfaldi hlutina. Hins vegar er það óafsakanlegt að þeir fari með ósannindi í lélegri tilraun til að einfalda hluti sem ekki þarf að einfalda. Raunar skilst mér að þessi tilteknu atriði séu einfölduð á sama hátt meðal kennara þessarar fræðigreinar á háskólastigi. En á að réttlæta kennslu á bulli með því að það sé líka kennt á æðra skólastigi?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *