Illmenni og óvandað málfar

Blaðsíða átta í Fréttablaði dagsins er sniðug. Þar er annars vegar vísað í DV-grein um einhvern Kaftein Kókaín, sem að sögn beinbraut ekki aðeins konuna sína en lemstraði úr henni tennur í þokkabót. Hvílíkt illmenni. Loks höfum við íslendingar alvöru ofurillmenni, en það er nauðsynlegt á alþjóðavettvangi, svo við glúpnum nú ekki frammi fyrir Dr. Sýkli.

Önnur frétt á sömu blaðsíðu er illa skrifuð, en hún heitir „Rifbrotinn og lurkum laminn“. Greinarlýsingin er svona: Nói Marteinsson, bifreiðastjóri á Tálknafirði, var hætt kominn í gær þegar flutningabíllinn sem hann ók fór út af veginum í blindbyl og niður 150-200 snarbratta hlíð. Bíllinn er gjörónýtur. Nói rifbrotnaði og er lurkum laminn eftir að hafa barist í bílhúsinu niður í árfarveg, þar sem bíllinn stöðvaðist.

Hér vantar sumstaðar allt samhengi í textann. Annarstaðar er textinn lengdur óþarflega. Enda þótt textinn skiljist er hann óafsakanlega illa skrifaður.

Í dag lét ég tappa af mér

Er ég mætti í skólann í morgun hafði dreyrbíll La Banque du Sang rennt í hlaðið, tilbúinn til að vagga og velta. Lét ég þar blóð mitt. Ekki ligg ég á blóði mínu, eins og ormur á gulli. Onei. En af þeim sökum mætti ég of seint í tíma hjá Gufunni og missti af heilum tuttugu mínútum þar sem menn voru að rífa Flugnadróttinssögu William Golding í sig. Úr því verður skorið á þessari önn, hvort hún er sú snilld sem allir segja hana vera.

En nú sest ég niður við að skrifa mitt nýjasta frumlega meistarastykki, sem á engan hátt tengist Einari Kárasyni: „Þetta eru bjálfar, Friðbjörn“.

Af grímuböllum og húllumhæi

Hvað ef ég færi til Þýskalands vopnaður Þórshamrinum? Hvað um japönsku hliðstæðu þess tákns? Fólk er almennt vanhæft til að geta gert greinarmun á öllum þessum merkjum (sbr. gyðingurinn sem hljóp í fjölmiðla eftir árekstur við Eimskipafjelagshúsið og nokkra óprúttna unglinga), þó ég geti það hæglega. Það er rugl að eiga að banna merki, sérstaklega vegna þeirrar tylliástæðu sem notuð er, að bretaprins hafi arkað inn á grímuball með merkið á öxlinni. Ég endurtek fyrri orð mín: Það kemur umheiminum andskotann ekkert við hvað fer fram á grímuböllum, svo lengi sem það er löglegt. Sjálfur hef ég orðið fyrir barðinu á svona vitleysu, sællar minningar. Það var nú raunar ekki nasistabúningur …