Að þekkja fólk og kenningar

Mér leiðist sá nýfundni siður ungmenna að brúka óminnishegrann í daglegu tali sem kenningu um ölvun. Óminnishegrinn var aldrei kenning, og hefði aldrei átt að verða að slíkri. Aftur á móti var hann hlutgerving. Að nota óminnishegrann er því eins og að segja að fjöllin setji upp nátthúfurnar. Þá er þetta orðin spurning um frumleika og höfundarrétt.
Skelfing þykir mér að því hve illa ég man eftir fólki. Raunar get ég nærri fullyrt að útfríkuð kona í brjálæðislegri múnderingu, sem réðist að afgreiðslukassanum mínum í dag, vinkaði mér harkalega og hljóðaði upp yfir sig, af geðrænni hrifningu „HAA-AA-ÆÆJJJ!!!“ er ekki manneskja mér forkunnug. Hins vegar er ég ekki viss um stórbeinótta manninn með uppgreidda hárið í svörtu flíspeysunni sem kallaði mig Stefán. Hann gæti ég hafa hitt áður.
Ein manneskja kannaðist þó við mig og ég til baka. Það var rétt eftir að ég hafði afgreitt geðslega stúlku með downs-heilkenni, sem var æði forvitin um einkalíf mitt. Ein spurningin fól í sér hvort ég hefði einhvern tíma verið ástfanginn og hvað stúlkan hafði heitið. Lét ég mér í léttu rúmi liggja persónulegt eðli spurningar hennar og svaraði því fyrsta sem kom í huga mér, þótt ósatt væri: Anna. Veit ég ekki fyrri til, en fyrrum bekkjarsystir mín til margra ára kemur á kassann minn, hún Anna. Mundi ég skyndilega eftir vissum sögum sem gengu um sjöunda bekk Laugarnesskóla, að hún væri hrifin af mér (hún hætti því víst í áttunda bekk, þegar líkami hennar tók snöggum breytingum til hins betra, og hún varð af öllum eftirsóknarverður kvenkostur). Það má því segja að ég hafi orðið nokkuð vandræðalegur, þótt langur tími sé liðinn, enda ekki með öllu víst, að ekki standi nokkur gömul sár óýfð. Hins vegar virtist hún ekki hafa tekið eftir ummælum mínum, svo hvíta lygin mín til fötluðu stúlkunnar varð engum að fjörtjóni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *