Staðreyndavillur og kjaftæði

Hver ætli helmingunartími staðreyndavilla sögubókanna sé (það er jú ekkert sagnfræðingaþing í Níkeu til að ritskoða allar sögubækur á einu bretti). Menn klifa enn um að Gutenberg hafi fundið upp prentverkið og að Pascal hafi fundið upp reiknivélina. Það er eins og að segja að Sókrates sé upphafsmaður heimspekinnar, en þótt hann hafi markað tímamót verður því seint haldið fram, að hann hafi verið fyrstur. Þetta hef ég áður talað um hér.
Kannski nennir enginn að breyta þessu. Menn halda því ennþá fram að mannsheilinn sé öðrum heilum sérstæðari hvað notkun varðar, þ.e. að við notum eingöngu 10%, sem er argasta þvæla. Sömu menn halda því jafnan fram að einn hluti heilans hafi eitt sinn verið notaður til fjarskynjunar og hugsanaflutnings. Þessir sömu menn mættu hafa sig hæga og spyrja lækna, líf- og (alvöru) sálfræðinga álits. Af fleiri kreddum sem tröllríða ljósvakanum og ala á fávísi má t.a.m. nefna sjálfsmorð læmingja, áfallahjálp, smáskammtalækningar, miðlar, viska Gunnars Dal og „mjólk spornar gegn beinþynningu“. Allt er þetta kjaftæði sem finna má rétt svör við ef rétt fólk er að spurt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *