Sænskt sumar

Jæa, þá er öðrum (hálfum) degi mínum í starfsþjálfun lokið. Svo er það sleitulaus vinna fram á miðvikudag, en þá á ég frí, ef að líkum lætur. Ekki að það sé neitt issue, svo ég mæli á aðra tungu.

Heim með mér hafði ég milljón bæklinga um hina ýmsu og margvíslegu sófa sem viðskiptavinum Ikea stendur til (kosta)boða. Það verður lesefni mitt næstu daga, meðan ég klára síðustu kassadagana mína. Í næstu viku tek ég bæklinga um bókaskápa og borðstofuborð. Alveg er ég viss um að lesendur mínir eru eins áhugasamir um Ikeahúsgögn og ég, svo aldrei er að vita nema þeim verði komið þægilega á óvart á allra næstu dögum, með færslum um hin ýmsu litbrigði Billy-bókaskápa og Ektorp-sófa.

Í sumar stefni ég að því að eyða virku dögunum í að hjóla um hvippinn og hvappinn, setjast á lær mér, taka ofan hatt minn og yrkja fögur kvæði sem ég anda að mér ferskum sumarandvaranum. Að sjálfsögðu fullur. Og nakinn.

Hattabúðin er raunar enn ekki búin að senda hattinn minn af stað. Urg! Aldrei að díla við kjarnorkuveldi. Ef viðskiptavinir þeirra eru með eitthvað múður, þá núka þeir þá bara í klessu. Svo ég neyðist víst til að bíða, milli vonar og ótta um að hatturinn komi einhvern tíma þegar ég er orðinn háaldraður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *