Hver er tilgangur fyrirsagna?

Þá er búið að sjá um skólagjöld næsta vetrar. Að sjálfsögðu var passað upp á að hafa upphæðina örlítið hærri en í fyrra, að sið undangenginna ára. Maður kreistir svona upphæðir ekki beinlínis fram úr erminni, fátækur námsmaðurinn, en öðruvísi gengur þetta víst ekki.

Svo keypti ég skissubók. Ég ætla að reyna að endurnýja kynni mín við drátthagleiksgyðjuna, þ.e. ef hún vill taka við mér aftur. Ég hef ekki beinlínis verið iðinn við krotið síðastliðin ár. Á meðan eru allir aðrir skyndilega orðnir að Van Goghum og Dalíum Íslands, en ég sit eftir í tættu sæti Sigmunds. Tími er kominn á kúvendingu.

Þröngur smekkur

Mig hrjáir lítið vandamál: Þröngur smekkur. Í dag fór ég til að mynda niður í bæ í leit að húfu, en fann enga sem mér leist á. Nógu var þó úr að velja. Þessu sama lenti ég í er ég var í leit að hatti, og það endaði á miklum fjárútlátum.

Eftir að hafa þreytt starfsfólk Guðsteins, P. Eyefeld og Hattabúðar Reykjavíkur, með spurningum um vissa gerð húfu sem mig dauðlangar í, gafst ég upp og gekk niður í Iðu, þar sem ég festi kaup á stúdentsgjöf óhappabloggarans. Þá er bara eftir að afhenda gripinn. Seint gefa sumir en gefa samt.

Hvers vegna er Þórbergur svona æðislegur?

„Í Baðstofunni lifði ég líka það að sjá fyrsta esperantistann, sem ég augum leit á lífsleiðinni. Það var litlu fyrir jól 1909. Hann hét Bjarni Þorleifsson, sonur Þorleifs Jónssonar póstmeistara. En þá var ég svo sljór og fávís, að það hvarflaði aldrei að mér að hugsa: Svona lítur þá esperantisti út“.

Þess vegna er Þórbergur svona æðislegur. Önnur góð tilvitnun:

„Vorið 1912 munaði minnstu, að nýr gestur bættist við á samkundum Baðstofunnar. Það var Kristján Albertsson, sem síðar varð ritstjóri Varðar og nú er háskólakennari í Berlín [Hvernig skyldi honum hafa farnast í heimsstyrjöldinni síðari? innsk. bloggara]. En þá kom kvæði mitt Nótt út á fyrstu síðu í Ísafold. Höfundur annars eins meistaraverks hlaut að vera guði líkari en mönnum. Og Kristján áræddi aldrei nær helgidómi Baðstofunnar en að gömlum símastaur, sem stóð upp úr Skólavörðustígnum skammt fyrir vestan Bergshús. Þar hímdi hann upp við staurinn og mændi upp í glugga skáldsins. Edgar Allan Poe hafði líka staðið upp við staur, þegar hann orti hrafninn“.

Báðar tilvitnanir eru teknar úr Ofvitanum bls. 95 í útgáfu Máls og menningar 2001.