Hvers vegna er Þórbergur svona æðislegur?

„Í Baðstofunni lifði ég líka það að sjá fyrsta esperantistann, sem ég augum leit á lífsleiðinni. Það var litlu fyrir jól 1909. Hann hét Bjarni Þorleifsson, sonur Þorleifs Jónssonar póstmeistara. En þá var ég svo sljór og fávís, að það hvarflaði aldrei að mér að hugsa: Svona lítur þá esperantisti út“.

Þess vegna er Þórbergur svona æðislegur. Önnur góð tilvitnun:

„Vorið 1912 munaði minnstu, að nýr gestur bættist við á samkundum Baðstofunnar. Það var Kristján Albertsson, sem síðar varð ritstjóri Varðar og nú er háskólakennari í Berlín [Hvernig skyldi honum hafa farnast í heimsstyrjöldinni síðari? innsk. bloggara]. En þá kom kvæði mitt Nótt út á fyrstu síðu í Ísafold. Höfundur annars eins meistaraverks hlaut að vera guði líkari en mönnum. Og Kristján áræddi aldrei nær helgidómi Baðstofunnar en að gömlum símastaur, sem stóð upp úr Skólavörðustígnum skammt fyrir vestan Bergshús. Þar hímdi hann upp við staurinn og mændi upp í glugga skáldsins. Edgar Allan Poe hafði líka staðið upp við staur, þegar hann orti hrafninn“.

Báðar tilvitnanir eru teknar úr Ofvitanum bls. 95 í útgáfu Máls og menningar 2001.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *