Æekki, hlífðu mér!

Við bróðir minn vorum á Pítunni áðan þegar stelpa, nokkru eldri en ég, gengur að borðinu okkar og segist kannast svo rosalega við mig. Ég sagðist líka kannast við hana, en ég myndi ekki hvaðan (ósjálfráð viðbrögð. Eftir á að hyggja hef ég ekki hugmynd um hver hún er). Þá spurði hún mig hvort ég hefði nokkra vinnu. Ég játti því og sagði hvar. „Já, það hlýtur að vera þaðan,“ sagði hún „ertu í IKEA í Kópavoginum eða … uppi í Holtagörðum?“
Ég: Holtagörðum.
Hún: Ég var nefnilega einu sinni í IKEA.
Ég: Já …
Hún: Ég keypti mér borð, ég var nefnilega að flytja. Bara sextánþúsund!
Ég: Já … var það hringborðið?
Hún: Já, það var svona … borð (strikar ósýnilegar kassalaga útlínur) með plötu til að stækka.
Ég: Ég skil.
Hún:Já, það er ógeðslega flott. Ég er ógeðslega ánægð með það, hef aldrei séð eftir því að hafa keypt það. Þetta er svo ótrúleg búð, ég nefnilega fór þangað til að kaupa borð og svo eigið þið allt þarna! Ég keypti mér svona þvottagrind en ég eyðilagði hana (stúrin á svip). Eigið þið nokkuð svona grindur til að hafa úti (gerir látbragð eins og hún sé að opna poka).
Ég: Ég veit það ekki. Það er ekki mín deild.
Hún: Kannski afgreiddir þú mig um borðið!
Ég: Já, kannski, ef það var um daginn.
Hún: Já, það var áreiðanlega þú! Þú stóðst þarna (gerir látbragð eins og hún standi við borð) og ég kom með númerið og þá hringdi stelpan og sagði að borðið væri til.
Ég: Já, það gæti verið.
Hún: Já, ég er ógeðslega ánægð með það. Hef aldrei séð eftir því að hafa keypt það.
Ég: Nei (geri augngotur eins og ég þurfi að hlaupa öskrandi að kókvélinni til að fá mér áfyllingu).
Hún: Jæa, ógeðslega gaman að sjá þig!
Ég: Já … sömuleiðis.

Samræður okkar voru aðeins lengri og ekki nákvæmlega svona. Þær voru pínlegri og hún tjáði sig meira. Eins og hún raunverulega sagði hlutina vorum við bróðir minn ekki vissir um hvort hún hefði sagst hafa unnið í IKEA eða farið þangað einhvern tíma fyrir löngu. Í alla staði var ég ekki viss um hvort hún hefði keypt borðið fyrir löngu eða um daginn. Hvort tveggja hlýtur það að hafa verið, miðað við hvernig hún sagði það. Og IKEA er aðeins til í Holtagörðum, Gunnari Birgissyni til maklegrar reiði.

Hvað sem því líður eru svona uppákomur mér síður en svo að skapi. Hvað fær fólk eiginlega til að gera svona lagað? Við þekkjumst ekki neitt. Var þetta flirt? Eða var þetta stalk? Alveg er ég viss um að frægara fólk en ég, t.d. Randver Þorláksson, lendir aldrei í svona uppákomum. Finnst þér þú kannast við mig já? Þú veist hver ég er: Ég er Randver Þorláksson. En við bloggarar og IKEA starfsmenn búum víst ekki við slíkan munað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *