112163022712958992

Í gær kom maður í búðina sem vildi kaupa einhvern fjandann sem ekki var til. Þegar ég sagði honum hvernig í pottinn var búið, sagðist hann alltaf muna eftir 26. desember 1993, því þá var það til í búðinni sem hann vildi kaupa.

Í þann tíð var IKEA í Kringlunni og Mikligarður var um það bil að leggjast af. Mikligarður fannst mér góð búð þá. Eflaust var hún það samt ekki.
Þá voru Samskip til húsa þar sem Rúmafatalagerinn er núna. Í dag á IKEA gamla Samskipahúsið fyrir neðan Holtagarða.
Þessi búð sem svo margir elska að hata að versla við hefur því stækkað mikið síðan 1981, þegar IKEA var lítil deild í Hagkaupum.
Mér skilst að bráðlega verði opnuð þrefalt stærri verslun, hugsanlega í Garðabænum, og þá verði versluninni í Holtagörðum lokað. Fyrir þann tíma þarf ég að finna mér nýja vinnu.

Annars plagar mig verkur sem ég af lítilli anatómískri kunnáttu staðset í hægra nýra, ef slíkt líffæri er þá til. Þetta er eins og krónískur hlaupastingur, aðeins verri. Ég læt kannski líta á þetta við tækifæri, ef þetta hverfur þá ekki af sjálfu sér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *