Hví, Nietzsche, hví?!

Í gærkvöldi las ég inngangskaflann að Svo mælti Zaraþústra eftir Friedrich Nietzsche. Ef öll bókin er skrifuð í sama absúrd véfréttastíl og inngangurinn gæti ég þurft að berja mig til bókarinnar. Líkt og píanókennarar gerðu við nemendur sína, meðan píanóleikur var ekki á færi þeirra, sem ekki þoldu barsmíðar. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að orða hlutina kryptískt meðan unnt er að tala eins og maður. Eins þunn og Bókin um veginn er gæti hún verið helmingri þynnri ef öllu kjaftæðinu væri sleppt úr henni. Á sama hátt sóar Nietzsche heilu blaðsíðunum í ómarkvissar einræður Zaraþústru yfir skítugum skrílnum:

„Maðurinn er vaður sem strengdur er á milli dýrs og ofurmennis, -vaður yfir hyldýpisgjá.
Ferðin yfir hana er háskaleg, háskaleg alla leið; það er háskalegt að líta til baka, háskalegt að skjálfa og nema staðar.
Maðurinn er að því leyti mikill að hann er brú en ekki takmark: Það sem gerir manninn elskuverðan er að hann er í senn ferð og fall.
Ég elska þá sem ekki kunna fótum sínum forráð, það er að segja þá sem farast, því að þeir komast á leiðarenda.
Ég elska þá sem fyrirlíta mikið, því að þeir eru hinir miklu aðdáendur og örvar þrárinnar eftir bakkanum hinum megin.
Ég elska þá …“ o.s.frv.

Ég hafði ekki hugmynd um hvern fjandann maðurinn átti við fyrr en eftir að ég lagði bókina frá mér. Það sem Zaraþústra á við er að maðurinn er ekki lokaafurð þróunarinnar. Manninum þarf að skiljast að tilgangur eigin tilvistar er að honum sé stýrt af ofurmenninu, hinum mikla leiðtoga, sem veit hvað gera skal og hvernig skal gera það. Ofurmennið sér til þess að hver sé þar sem hans nýtur best, til að þjóna hagsmunum heildarinnar, því það er eina leiðin áfram. Ofurmennið sjálft er hinn fullkomni stjórnandi – sá maður sem ber höfuð og herðar yfir aðra menn.

Mussolini taldi sig vera ofurmennið.

Hvernig veit ég þetta ef ég nam þetta ekki af bókinni? Jú, ég hafði lesið mér til um ofurmenni Nietzsches annarsstaðar. Annars stæði ég líkast til á gati. Annars er nóg eftir af bókinni fyrir Nietzsche að koma sér að orðinu, svo það er kannski engin þörf á að örvænta strax.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *