Sumar letinnar 2005

Þetta sumar hefur farið í allt annað en ég hafði ráðgert. Ég ætlaði að láta gera við hjólið mitt, en enn liggur það niðri í geymslu og safnar ryki. Ég ætlaði að reyna að yrkja eitthvað, en lítið sem ekkert hef ég ort. Ég ætlaði að lesa mikið, en það hefur ekki gengið eftir. Ég ætlaði að byrja á lokaverkefni næsta vetrar nú í sumar, en hef enn ekki aflað mér nægra heimilda.

Þessa í stað ligg ég í leti milli þess sem ég vinn. Mikill er máttur letinnar. Spurning um að reyna að hrista af sér slenið svona rétt áður en ég fer til útlanda til að sitja og drekka bjór.

Svona eins og til að ýja að því að ég geri eitthvað má nefna þær bækur sem ég er að reyna að lesa:

1. Svo mælti Zaraþústra eftir Friedrich W. Nietzsche. Ég var byrjaður að lesa hana en hef ekki getað komið mér í nógu mikið stuð til að halda áfram með hana.
2. Rauða hættan eftir Þórberg Þórðarson. Ég byrjaði að lesa hana í gær, en ákvað að slá því á frest fyrir aðra bók.
3. Óhuggandi eftir Kazuo Ishiguro. Ég hef verið óhemju lengi að lesa hana, sem er stórfurðulegt því hún vekur upp svo margar spurningar í hverjum kafla, að maður heldur alltaf áfram að lesa til að fá þeim svarað í næsta kafla, en endar svo á að fá bara þeim mun fleiri spurningar. Ég ákvað að halda áfram að lesa hana í gær, þar sem frá var horfið.
4. Í kompaníi við Þórberg eftir Matthías Johannessen. Ágætisbók, fyrir utan að Matthías er lélegur spyrjandi og leyfir Þórbergi að komast upp með að flakka samhengislaust milli umræðuefna. Þar að auki fæ ég það á tilfinninguna að Matthías þessi sé leiðindatýpa.
5. Englar og djöflar eftir Dan Brown. Byrjaði að lesa hana fyrir nokkru, fékk svo leið og hætti. Klára hana eflaust með tíð og tíma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *