Sumar, vetur, vor og haust

Úff hve ég er þreyttur. Á öllu og engu. Ég þrái ískalda snertingu kolsvarts vetrar. Helst vil ég ekki sjá til sólu allan tímann, ekki fyrr en í maí, þegar frostbitnir, svarbláir puttarnir þrá aftur hita og önnur sumartengd leiðindi. Já, það er rétt að mér líður betur í myrkrinu og kuldanum. Sumrin eru alltof löng. Mín vegna mætti stytta þau um tvo mánuði og lengja þeim mun fremur haustin.

Sumrin verða aðeins leiðinlegri með hverju árinu. Ég á víst ekki von á góðu á næsta ári ef sumarið þá verður í einhverju líkt þessu, eins og það átti nú að vera frábært. Sumrin eiga alltaf að vera frábær. En það reynast þau sjaldnast vera.

Skólinn byrjar á miðvikudaginn. Ég þangað. Þangað vildi ég fara 27. apríl, daginn eftir að honum lauk. En loks styttist í veturinn. Ískaldan, niðdimman veturinn, með norðurljósum og stjörnubliki. Ég er meira með sjálfum mér á veturna. Ef ég væri geðveikur og sálarlíf mitt væri árið þá væri ég í síkópatískri maníu á sumrin og eðlilegur á veturna. Þá væri vinnan bólstraður klefi og haustin lyfjagjöf.

Í hvað fór annars þetta sumar? Það gerist aldrei neitt á sumrin. Þess vegna ætti ævisagan mín að heita „Vetur lífs míns“ eða eitthvað álíka. Ævisögur heita alltaf einhverjum svona steiktum titlum. Steiktasti titillinn hlýtur þó að vera á sjálfsævisögu Alex Ferguson, „Managing my life“. Hversu athyglisverð getur ævi hans hafa verið? Hver les svona bækur? Áreiðanlega sama fólk og les „Breaking the teeth of life, the autobiography of Wayne Gretzky“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *